Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sat fastur á Bessastöðum og fær 7,5 milljónir

08.04.2017 - 10:00
Bessastaðir, heimili forseta Íslands.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Umsjónarmaður með forsetabústaðnum á Bessastöðum var hlunnfarinn um 7,5 milljónir í laun á árunum 2010 til 2014 að mati héraðsdóms. Manninum var skylt að vera til staðar á Bessastöðum alltaf, allan sólarhringinn, í fjögur og hálft ár nema þegar hann fékk vaktafrí aðra hverja helgi. Hann fékk hins vegar aldrei greitt fyrir að vera á bakvakt.

Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag en hann hefur ekki enn verið birtur opinberlega. Niðurstaða dómsins er sú að ofan á vinnuskyldu sína, sem var um 250 klukkustundir í mánuði, hafi maðurinn í raun verið á bakvakt öll þau fjögur ár og átta mánuði sem hann vann á Bessastöðum í embættistíð Ólafs Ragnars Grímssonar, ef frá eru talin stöku vaktafrí og orlof, og að hann eigi inni laun fyrir það.

Maðurinn gekk í mjög mörg störf á Bessastöðum, sinnti almennri vörslu á staðnum, eftirliti, umsjón með húsakosti og lóð, sem og tækni- og öryggiskerfum og fleiru. Hann lýsti því í stefnu sinni á hendur ríkinu vegna málsins að hann hefði í raun verið fastur á Bessastöðum. Þegar hann réð sig til starfa í janúar 2010 hafi honum verið lofað að þótt hann þyrfti stundum að vera á bakvakt vegna ýmissa mála þá yrði sú kvöð ekki íþyngjandi. Þess væri bara krafist að hann hefði náttstað á Besstastöðum en að öðru leyti hefði hann fullt ferðafrelsi innan höfuðborgarsvæðisins.

Annað hafi komið á daginn. Maðurinn segir bakvaktirnar hafa íþyngt honum mjög og í raun hafi vinnuskyldu hans hreinlega aldrei lokið. Hann hafi þurft að hafa viðveru á Bessastöðum allan sólarhringinn, nema þegar hann var í orlofi eða í vaktafríi aðra hverja helgi, sem þó hafi ekki alltaf staðist heldur.

Auk þess hafi hann stundum verið látinn hlaupa í skarðið fyrir bílstjóra forsetans, jafnvel að nóttu til, og þá hafi ekki alltaf verið gætt að hvíldartíma hans daginn eftir.

Sérstakt eðli embættisins

Maðurinn segir að í samtölum sínum við starfsmenn forsetaembættisins hafi þeir aldrei þrætt fyrir að hann hafi alltaf þurft að vera til staðar og til taks á staðnum. Þeir hafi hins vegar lýst því að vinnustaðurinn væri fámennur og þess vegna væri nauðsynlegt að starfsmenn væru tilbúnir að ganga í öll störf á öllum tímum. Maðurinn segir að þetta megi skilja sem svo að þeir telji sérstakt eðli vinnustaðarins réttlæta að starfsmenn séu ætíð reiðubúnir til starfa, án þess að þeir njóti sanngjarnra launagreiðslna fyrir.

Í mótbárum íslenska ríkisins, fyrir hönd forsetaembættisins, er tekið fram að mun minna hafi verið fyrir umsjónarmanninn að gera þegar forsetinn var erlendis, og það hafi hann verið í upp undir fjóra mánuði á ári þegar mest lét. Þá hafi maðurinn notið hærri launa en forveri hans í starfi, auk þess sem hann hafi átt þess kost að stunda háskólanám samhliða vinnunni.

Dómurinn telur að ekkert af þessu skipti máli. Maðurinn hafi verið á bakvakt allan þennan tíma og eigi þess vegna inni 7,5 milljónir króna í laun fyrir það.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV