Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sást til ormskríkju í fyrsta sinn síðan 1956

09.09.2019 - 15:08
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Sjaldgæfi flækingsfuglinn ormskríkja sást við Reykjanesvita á Suðvesturlandi í gær. Síðast sást fugl af þessari tegund á Íslandi í október 1956, eða fyrir rúmum sextíu árum.

Ormskríkjan hefur að öllum líkindum hrakist mörg þúsund kílómetra af leið og er líklegast komin á endastöð hér á landi, segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. „Þetta er bara náttúran að störfum.“

Kristinn segir að ormskríkjur séu litlir amerískir söngvarar sem tilheyri hópi skríkja. Skríkjur eru skordýraætur sem margar eiga vetrardvöl í Suður- og Mið-Ameríku en fara þaðan til Norður-Ameríku, segir hann.

Skríkjur hafa sést hér á landi í tugatali en eru þó með sjaldgæfari flækingsfuglum sem hingað koma. Þá er ormskríkjan með sjaldgæfari skríkjum sem sést hafa hér. 

Hrekjast til landsins undan veðrum og vindum

Skríkjurnar geta hrakist til Íslands undan veðrum og vindum þegar hausta tekur. Þessi skríkja sé þó hingað komin í fyrra fallinu. Fuglarnir fara af réttri leið, til dæmis vegna djúpra lægða frá austurströndum Bandaríkjanna, og enda hér eða í Vestur-Evrópu. Vegna þessa eru fuglarnir kallaðir hraknings- eða flækingsfuglar. Koman til landsins er óvanaleg blindgata fyrir þá flesta, segir hann.

Kristinn segir að það sé ólíklegt að fuglinn rati aftur til baka rétta leið. Þetta sé líklegast endastöðin. Hins vegar geti orðið ákveðin framþróun þegar fuglar fara af leið og það orðið til þess að þeir dreifist á milli landa. Sumar tegundir fugla hafi til dæmis náð að mynda varpstofna í kjölfar þess að þeir hrekist á rangan stað, eins og til dæmis fuglinn glókollur hér á landi, segir hann. 

Á Facebook-síðunni Birding Iceland má sjá myndband af fuglinum sem sást til í gær.