Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

SAS segir tímabundið upp langstærstum hluta starfsfólks

15.03.2020 - 17:33
epa08296158 Scandinavian Airlines (SAS) CEO Rickard Gustafson leaves a news conference on the company's situation due to the Corona virus, at the company's headquarters in Stockholm, Sweden, 15 March 2020.  EPA-EFE/Claudio Brescian  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT NEWS AGENCY
Flugfélagið SAS mun draga gríðarlega úr rekstri sínum frá og með morgundeginum vegna minni eftirspurnar í kjölfar COVID-19 faraldursins. Stærstum hluta starfsfólks verður sagt upp, en vonir standa til að það verði aðeins tímabundið.

„Við erum að upplifa neyðarástand sem smitast á milli landa sem jafnframt dreifir sér í atvinnulífinu. Yfirvöld hafa tekið fordæmalausar ákvarðanir til þess að vernda borgara sína og fyrir SAS þýðir það að eftirspurn eftir flugmiðum hefur nánast gufað upp,“ sagði Rickard Gustafson, forstjóri félagsins, á fréttamannafundi síðdegis.

Hann tilkynnti þá að um 90% starfsfólks SAS, eða um tíu þúsund manns, er sagt tímabundið upp störfum. SAS heldur áfram uppi nokkrum flugleiðum, aðallega á milli Norðurlanda til þess að aðstoða fólk að komast til síns heima.

„Við stöndum vel að vígi og getum komist af þrátt fyrir að þessi staða vari í enhvern tíma. En að sjálfsögðu getur flugfélag ekki lifað lengi af án þess að hafa viðskiptavini,“ sagði Gustafson.