Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sannleiksbók sýnir falsaðar myndir

31.08.2018 - 05:17
epa06198381 Rohingya refugees wait to receive relief goods during hot weather in Ukhiya, Cox's Bazar, Bangladesh, 11 September 2017. Rohingya refugees experience huge problems to find shelters as they stay on the streets, inside small forest and in
Róhingjar á flótta Mynd: EPA
Her Mjanmars notar falsaðar myndir til að segja það sem herinn kallar sannleikann um komu Róhingja til Mjanmars. Myndirnar eiga meðal annars að sýna fólksflutninga Róhingja til Mjanmar frá Bangladess seint á fimmta áratugnum, en Róhingjar líta á sig sem frumbyggja vesturhluta landsins, þar sem nú er Rakhine-hérað.

Myndirnar er að finna í riti hersins um atburðina í ágúst í fyrra, þegar um 700 þúsund Róhingjar flúðu áhlaup hermanna yfir landamærin til Bangladess. Reuters fréttastofan fann þrjár myndir sem greinilega eru falsaðar til að þjóna því sem herinn segir sannleikann um Róhingja.

Fyrsta myndin sem Reuters fjallar um sýnir mann draga lík upp úr sjónum við Mjanmar. Herinn skrifar við myndina að Róhingjar, sem kallaðir eru Bengalar í bókinni, hafi drepið almenna borgara í átökum um landsvæði í Mjanmar á fimmta áratugnum. Myndin er hins vegar frá árinu 1971. Þá barðist Bangladess um sjálfstæði og háði stríð við Pakistan. Þúsundir Bangladesa létust í stríðinu, og sýnir myndin mann draga lík nokkurra þeirra upp úr sjónum.

Önnur myndin sem Reuters sá að væri notuð til sögufölsunar er verðlaunamynd frá árinu 1996 sem Martha Rial tók. Hún hlaut Pulitzer verðlaunin fyrir mynd sína af Hútúum flýja ofbeldi í Rúanda. Her Mjanmars lætur myndina virðast eldri og segir hana sýna Róhingja troða sér inn í landið óboðnum á fimmta áratugnum.

Þriðja og síðasta myndin í grein Reuters er reyndar af Róhingjum, og öðrum íbúum Bangladess. Upprunalega myndin er frá árinu 2015 og sýnir troðfullan bát af flóttafólki sem her Mjanmars bjargaði undan suðurströnd landsins. Í bókinni er hins vegar búið að snúa myndinni við, hún látin virðast eldri og sögð sýna Róhingja fjölmenna sjóleiðina til Mjanmars.

Í inngangi bókarinnar er sagt að bókin notist við myndir sem heimilidir til að sýna sanna sögu Bengala. Þá segir í bókinni að Bengalar noti hvert tækifæri þegar pólitískur óstöðugleiki er í Mjanmar til að hrinda af stað trúarlegum átökum. Reuters náði ekki í höfund bókarinnar við gerð greinar sinnar, og ekki náðist heldur í talsmann stjórnvalda eða hersins.

Her Mjanmars hefur verið sakaður um þjóðarmorð og aðra stríðsglæpi gegn Róhingjum. Herinn hafnar niðurstöðum skýrslu Sameinuðu þjóðanna þar sem ásakanirnar koma fram.