Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sanna að Íran hafi ráðist á olíuvinnslustöðvar

18.09.2019 - 10:03
epa07849292 Prince Abdulaziz bin Salman, the Saudi Minister of Energy, gives a press conference in Jeddah, Saudi Arabia, 17 September 2019. Prince Abdulaziz bin Salman said that his country's oil production will be fully restored by the end of September, after the drone attack that knocked out almost half of the country's production.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hyggjast í dag leggja fram sannanir um aðkomu Írana að árásum á tvær olíuvinnslustöðvar um síðustu helgi. Stjórnvöld vestra fullyrða að Íranar hafi verið að verki en stjórnvöld í Teheran hafa neitað sök. Uppreisnarhreyfing Húta í Jemen lýsti árásinni á hendur sér en bandarísk stjórnvöld segja allt benda til þess að stýriflaugum hafi verið skotið frá suðurhluta Írans.

Varnarmálaráðuneyti Sádi-Arabíu hefur boðað til blaðamannafundar klukkan hálf þrjú í dag þar sem lagðar verða fram sannanir og írönsk vopn sem eiga að renna stoðum undir það að Íran hafi komið að árásunum. Talið er að ef haldbærar sannanir verði birtar muni bandarísk stjórnvöld bregðast við á einn eða annan hátt.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er á leið til Sádi-Arabíu í dag til að ræða við ráðamenn um árásirnar og átök á svæðinu. Bandaríkjamenn hafa áður sagt að þeir vilji ekki fara í stríð en þeir væru á sama tíma tilbúnir að verja hagsmuni sína og samherja sinna í Miðausturlöndum.