„Samúð bæjarbúa er hundrað prósent með öndunum“

25.11.2019 - 16:55
Mynd: Wikimedia commons / Wikimedia commons
Endurnar þrjátíu á Fáskrúðsfirði, sem til stendur að aflífa á morgun fái þær ekki húsaskjól fyrir veturinn, eru gæfar og skemmtilegar samkvæmt Óðni Magnasyni íbúa bæjarins. Hann kveðst bjartsýnn á að bæjaryfirvöld leyfi öndunum að lifa.

Um helgina birtist frétt á mbl.is um að til standi að aflífa þrjátíu endur sem búsettar eru á Fáskrúðsfirði á morgun ef eigandi þeirra verður ekki búinn að útbúa hús til að hýsa endurnar og verja þær fyrir vetrarkulda. Þar kemur fram að starfsfólk sveitarfélags Fjarðarbyggðar hafi áhyggjur af því að öndunum verði kalt í vetur ef ekkert verði að gert. Óðinn Magnason sem rekur kaffihús í bænum þekkir manninn sem upphaflega fékk leyfi til að ala nokkrar endur á andapollinum í bænum fyrir fjórum árum síðan en síðan hefur fuglunum fjölgað og eru endurnar í dag í miklum metum hjá bæjarbúum samkvæmt honum. Hann ræddi við Síðdegisútvarpið um endurnar og hvernig málið horfir við honum.

„Fyrir nokkrum árum síðan fékk einn félagi minn í bænum leyfi sveitarfélagsins Fjarðarbyggðar til að ala nokkrar endur á andapollinum. Náttúran sá svo til þess að öndunum fjölgaði,“ segir hann en endurnar eru sem fyrr segir orðnar þrjátíu talsins eftir nokkurra ára dvöl í bænum. Nýlega fær maðurinn fyrirmæli um að hann verði að grípa til ráðstafana svo endurnar lifi vetrarkuldann af en honum er tjáð að þær þurfi að komast í húsaskjól fyrir 26. nóvember, annars verði þær aflífaðar. Óðinn bendir á að endurnar séu ekki vanar því að dveljast innandyra og að þær hafi síðustu árin alltaf lifað veturinn án nokkurra vandræða. „Og hvað á hann að gera við endurnar? Fara með þær heim í stofu eða út í bílskúr? Hann hefur ekkert með þessar þrjátíu endur að gera,“ segir Óðinn ákveðinn.

Hann segir einnig að endurnar séu gæfar og í miklum metum hjá bæjarbúum.„Þessar endur hafa komið upp eggjum og ungum og þær hafa verið látnar í friði algjörlega,“ segir hann. „Aðrir íbúar á Fáskrúðsfirði segja: Þetta eru dýrin okkar. Samúðin er með þeim hundrað prósent.“

Óðinn segist þó vongóður um að bæjarstjórn Fáskrúðsfjarðar muni leyfa öndunum að lifa þrátt fyrir að það stangist á við Samþykkt um fiðurfé í Fáskrúðsfirði. „Ég held að allir séu orðnir sáttir við að leysa þetta á góðan hátt og ég trúi því að menn taki skynsamlega á þessu máli,“ segir hann að lokum.

Viðtalið við Óðinn Magnason má hlýða á í spilaranum efst í fréttinni.

juliame's picture
Júlía Margrét Einarsdóttir
vefritstjórn
hafdishh's picture
Hafdís Helga Helgadóttir
andriv's picture
Andri Freyr Viðarsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi