Samþykktu lög í skyndi og án umsagna

09.10.2019 - 20:41
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Alþingi samþykkti í dag frumvarp að lögum um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri. Þingmenn voru ekki að tvínóna við lagasetninguna. Frumvarpinu var dreift á þingi í fyrradag, mælt fyrir því síðdegis í gær og það var samþykkt fyrir kvöldmat í dag. Hvorki gafst tími til að senda út umsagnarbeiðnir eins og venja er til né að gera þeim félögum viðvart sem undir lögin falla. Talið er að þau séu á þriðja hundrað.

Hætta sögð á misnotkun félaganna

Lögin voru samin og samþykkt til að bregðast við athugasemdum alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og áhættumati Ríkislögreglustjóra. Þar var bent á hættuna á að almannaheillafélög væru notuð til að fjármagna ólöglega starfsemi eða til peningaþvættis. Í áhættumati Ríkislögreglustjóra sagði að veruleg hætta væri fyrir hendi að félagaformið væri misnotað í þágu brotastarfsemi. Ríkislögreglustjóri þekkir þó engin dæmi um að slíkt hafi verið gert hér á landi.

Alþjóðlegi vinnuhópurinn, FATF, gerði athugasemdir við að engin ákvæði væru í íslenskum lögum um skráningarskyldu almannaheillafélaga sem starfa þvert á landamæri. Í úttekt FATF frá í fyrra sagði að ýmsir veikleikar væru í íslenskri löggjöf og að stjórnvöld yrðu að bregðast við því með skjótum hætti. Ríki sem ekki bregðast við kröfum FATF geta lent á lista yfir ósamvinnuþýð ríki. Því fylgja strangari kröfur annarra ríkja um hvers konar fjármálastarfsemi sem á rætur að rekja til ósamvinnuþýðu ríkjanna. Fréttablaðið sagði í dag að bankamenn hefðu áhyggjur af veru Íslands á slíkum lista.

Ekki tími til að leita umsagna

Bankamenn þurfa þó ekki að örvænta að því er varðar skráningu almannaheillafélaga. Frumvarpið varð að lögum rétt fyrir kvöldmat, tveimur sólarhringum eftir að frumvarpið var lagt fram. 27 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu, fjórir þingmenn Pírata greiddu atkvæði gegn því og tíu þingmenn greiddu ekki atkvæði. 22 þingmenn voru fjarstaddir.

Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar sagði að málið hafi borið skjótt að og ekki gefist tími til að óska umsagna þeirra sem kunna að eiga hagsmuna að gæta. Þeir sem mættu fyrir nefndina voru fulltrúar tveggja ráðuneyta, ríkisskattstjóra og ríkislögreglustjóra.

Meirihluti nefndarinnar sagði nauðsynlegt að lögin öðluðust gildi þegar í stað. Ekki vannst tími til að gera félögunum viðvart og hvetur meirihluti nefndarinnar því til þess að sanngirni og meðalhófs verði gætt við þá vinnu sem er framundan við að skráningu félaganna.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi