Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Samþykkt þrátt fyrir ólík sjónarmið

18.01.2012 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Frumvarp sem heimilar staðgöngumæðrun hér á landi í velgjörðarskyni verður samið af starfshópi velferðarráðherra. Tillaga þess efnis var samþykkt á Alþingi í dag með 33 atkvæðum gegn 13. Frumvarpið verði lagt fram svo fljótt sem verða megi.

Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, sem mælti fyrir tillögunni í byrjun október en flutningsmenn ásamt henni eru 22 þingmenn allra flokka nema Hreyfingarinnar. Tillagan gengur út á að velferðarráðherra skipi starfshóp sem undirbúi lagafrumvarp sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hér á landi. Lögð er áhersla á að hagur barnsins sé sem best tryggður og hvernig megi best tryggja að um velgjörð sé að ræða.

Fjölmörg sjónarmið komu fram við atkvæðagreiðsluna í dag. „Þetta er mjög mikilvægt innlegg í þessa viðkvæmu umræðu umræðu sem við erum nú að fara að greiða atkvæði um. Það er ekki verið að greiða atkvæði um það að lögleiða staðgöngumæðrun, heldur einungis að við séum að fara af stað með vandaða vinnu til að skoða það mál,“ segir Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Steingrímur J. Sigfússon hafði meiri efasemdir. „Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að það sé rétt á þessu stigi að ákveða það og ganga frá því að starfshópi verði falið það verkefni beint út að semja frumvarp sem heimila eigi frumvarp í velferðarskyni.“

„Við höfum allt til þessa sem aðrar þjóðir geta ekki gert og þess vegna eigum við að vera fyrst og brjóta ísinn,“ sagði hins vegar Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri-grænna.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, mælti hins vegar eindregið gegn þessu. „Hér ætlar þingheimur, meirihluti þingheims að fylgja Sjálfstæðisflokknum í því að markaðsvæða meðgönguna og er það í anda annars sem kemur úr þeim ranni.“

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist telja þetta geta leitt til góðs og skapað fjölda fólks hamingju. „Við eigum eftir að kíkja á þetta betur en ég segi já við þessari tillögu.“

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, var efins. „Ég treysti mér hins vegar ekki til þess að stíga þetta skref en ég vil óska öllum áhugamönnum um þetta mál til hamingju með það.“