Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Samþykkt að fara Þ-H leið um Teigsskóg

22.01.2019 - 14:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti í dag með þremur atkvæðum gegn tveimur að halda áfram með aðalskipulagsbreytingar sveitarfélagsins sem gera ráð fyrir leið Þ-H um Teigsskóg.

Segja Vegagerðina hafa tekið skipulagsvaldið

Á fundinum voru lagðar fram þrjár tillögur. Ekki kom til atkvæðagreiðslu um tillögu Karls Kristjánssonar um að sveitarstjórn staðfesti samþykkt skipulagsnefndar um að setja leið R í aðalskipulag sveitarfelagsins. Þrír greiddu atkvæði með tillögu Árnýjar Huldar Haraldsdóttur um að halda áfram með aðalskipulagsbreytingar sveitarfélagsins sem gera ráð fyrir leið Þ-H um Teigsskóg, tveir voru á móti. Í tillögu Árnýjar Huldar segir hún sveitarfélagið ekki hafa raunverulegt val um vegagerð Vestfjarðavegar um Gufudalssveit þar sem Vegagerðin hafi tekið skipulagsvaldið af sveitarfélaginu. 

Töldu íbúakosningu engu breyta um niðurstöðu

Ingimar Ingimarsson, oddviti, lagði fram tillögu um að ákvörðun um leiðarval yrði frestað og haldin íbúakosning þar sem afstaða íbúa skipti miklu máli. Tillaga Ingimars var felld með þremur atkvæðum en einn sat. Árný Huld, ein þeirra sem greiddi atkvæði gegn tillögunni, bókaði að hún teldi að það sama ætti um vilja íbúa og sveitarstjórn Reykhólahrepps. Að þau hefðu í raun ekki skipulagsvaldið hvað varðar vegagerð um Teigsskóg. Þá tók Jóhanna Ösp Einarsdóttir fram að sveitarfélaginu væru settar fjárhagslegar skorður sem að íbúakosning myndi ekki breyta. 

Fréttin hefur verið uppfærð.