Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Samþjöppun á eignarhaldi í sveitum óæskileg

17.07.2018 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Landssambands veiðifélaga telur mikilvægt að áfram sé búið á jörðum sem keyptar eru af innlendum eða erlendum auðmönnum. Samþjöppun á eignarhaldi í sveitum sé ekki jákvæð. Erfitt geti þó verið, fyrir þá sem vilja stunda búskap, að keppa við þá sem eiga mikinn auð.

Uppkaup á jörðum í sveitum landsins hefur mikið verið til umfjöllunar og það gagnrýnt að sömu einstaklingar eða fyrirtæki geti keypt nánast heilu sveitirnar án þess að ætla sér að eiga þar heima, eða hafa jarðirnar í byggð að öðru leyti.

Mikilvægt að búið sé á jörðunum

Margar þessarra jarða eru laxveiðijarðir og veiðirétturinn það sem menn eru helst að sælast eftir. Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, var gestur Morgunvaktarinnar á Rás1. Hann telur að þarna verði menn að athuga sinn gang og hafa augun opin varðandi þessa þróun.  „Við höfum svosem ekki verið mikið að velta því fyrir okkur hvers lenskir menn eru, sem eiga ár eða jarðir. En það sem ég held að sé mikilvægt er að það sé búið á jörðunum og það sé líf í sveitunum. Þannig að því leyti er samþjöppun á þessu eignarhaldi kannski ekki jákvæð.“   

Erfið samkeppni við þá sem eiga mikinn auð

Æskilegast sé að í sveitum séu margir sjálfstæðir bændur og öflugt atvinnu- og félagslíf. En stjórnvöld verði að gera upp við sig hvernig samfélag skal byggja og hvernig hlutirnir eigi að vera til framtíðar. „Kannski er vandamálið bara samkeppnisstaða þeirra sem vilja vera í búskap gagnavart þeim sem eiga mikinn auð,“ segir hann.

Þróunin ekki allsstaðar neikvæð

En þessi þróun sé ekki öll neikvæð, því vissulega séu dæmi um að jarðir séu vel nýttar þó þar sé ekki stundaður eiginlegur búskapur. „En það er reyndar vandamál í þessu líka að það er að þjappast mikið saman búskapur. Þannig að það þarf að búa á miklu færri jörðum heldur en áður var. Þá auðvitað leitar þetta í einhvern farveg, þær jarðir sem ekki er verið að búa á,“ segir Jón Helgi.