Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Samþættar almenningssamgöngur í bígerð

Stjórnvöld ætla að endurskipuleggja almenningssamgöngur á landsbyggðinni og samræma strætó, flug og ferjur. Samgönguáætlun gerir ráð fyrir 300 milljónum í undirbúning borgarlínu á þessu ári.

 

Dýrt í strætó en tekjur of litlar

Landshlutasamtök sveitarfélaga hafa frá 2012 séð um almenningssamgöngur utan þéttbýlis á landsbyggðinni, með samningi við ríkið. Farþegum hefur fækkað, tekjur standa ekki undir þjónustunni, þrátt fyrir að hún hafi verið skert. Frá Egilsstöðum er hægt að taka strætó norður á Akureyri, það kostar 8500 krónur. Hægt er að halda áfram til Reykjavíkur og það kostar rúm 10 þúsund í viðbót eða samtals næstum 19 þúsund krónur. Oft er hægt að komast fljúgandi fyrir minni pening en það. „Jú, auðvitað er verðið allt of mikið miðað við það að hann stoppar á svo mörgum stöðum og maður er það lengi á leiðinni,“ segir Kristinn Kristmundsson, á Egilsstöðum. 

Hentar ekki öllum

„Mér finnst þetta að mörgu leyti þægilegur ferðamáti þegar færðin er góð og gott veður og maður er ekki í neinni tímaþröng. Þegar ég var að ferðast með þessu þá var ég reyndar á fullri örorku og þá kostaði þetta mig nánast ekki neitt, fimm þúsund kall minnir mig aðra leiðina til Reykjavíkur,“ segir Helgi Óskarsson á Egilsstöðum. 

Hildur Ingvarsdóttir býr á Akureyri. Hversu oft notar þú strætó til að ferðast utanbæjar? „Ég hef ekki gert það hingað til,“ segir Hildur. Hvers vegna ekki? „Ég hef bara farið á einkabíl. Það hefur kannski ekki hentað mér, lengri tími en að fara í einkabíl eða flugi,“ segir Hildur.  Magni Steinn Þorbjörnsson var á leið til Húsavíkur. Notar þú strætóinn oft? „Svona aðra, þriðju hverja helgi. Fer eftir því hvað er mikið að gera hjá mér.“ Hvernig finnst þér verðið? „Mætti vera lægra, en svona þúsund kall til Húsavíkur er allt í lagi,“ segir Magni Steinn. 

Samningum sagt upp

Öll landshlutasamtökin sögðu upp samningum við Vegagerðina í fyrra. Samkomulag tókst þó um að klára þetta ár, nema á Suðurnesjum þar sem sveitarfélög standa í skaðabótamáli gegn ríkinu. Forsenda samkomulags var að gengið yrði frá uppsöfnuðum hallarekstri, sem nemur samtals á þriðja hundrað milljónum frá 2012, og að kerfið yrði endurskoðað.

Heildstætt almenningssamgöngukerfi

Og nú er nýtt fyrirkomulag í kortunum, því stjórnvöld vinna að því að byggja upp heildsætt almenningssamgöngukerfi. Í samgönguáætlun, sem var samþykkt í gær, er skýr stefna um að íbúar á landsbyggðinni geti komist til höfuðborgarsvæðisins á þremur og hálfum tíma, akandi, með ferju eða í flugi. „Við höfum verið að vinna allt síðasta ár að uppbyggingu, skýrslu, um almenningssamgöngur á öllu landinu, samþættingu vega, flugs og ferja. Ég á von á því að í næstu viku fari sú skýrsla í samráðsgáttina,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra.

800 milljónir í undirbúning Borgarlínu

Meirihluti samgöngunefndar lagði sérstaka áherslu almenningssamgöngur á landsbyggðinni tengdust vagnakerfi og borgarlínu höfuuðborgarsvæðinu en í gær var samþykkt að veita 800 milljónum í undirbúning borgarlínu, 300 milljónum strax á þessu ári. „Án hennar munum við hvorki ná loftslagsmarkmiðum okkar né heldur að umferðin vaxi óheyrilega með tilheyrandi vandræðum fyrir allt og alla,“ segir Sigurður Ingi. Framlag ríkisins er háð því skilyrði að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu leggi til samsvarandi fjármuni til verkefnisins.