Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Samstíga í Strandabyggð

Hólmavík. Strandir. Loftmynd tekin með dróna
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Meiri stemming reyndist nú fyrir persónukjöri í Strandabyggð en listakosningu segja efstu manneskjur allra lista sem buðu fram í síðustu kosningum. Íbúarnir hafi meira og minna sömu hagsmuni og þótt einhver ágreiningur kunni að vera um leiðir þá séu markmiðin mikið til þau sömu. Þau deila áhyggjum af fækkun íbúa og eru sammála um nauðsyn þess að snúa þeirri þróun við. Efla þurfi atvinnulífið og koma hitaveituhugmyndum í stokkana.  

Strandabyggð varð til við sameiningu Hólmavíkurhrepps og Broddaneshrepps árið 2006. Persónukjör verður í sveitarfélaginu að þessu sinni en það hefur ekki gerst á Hólmavík síðan 1982. Í síðustu kosningum buðu þrír listar fram. E-listi Strandamanna fékk einn mann eins og F-listi óháðra. J-listi Félagshyggjufólks fékk þrjá menn kjörna en aðeins munaði tveimur atkvæðum á þriðja manni hans og öðrum manni E-lista.

Búið var að setja saman einn lista fyrir kosningarnar nú. Ingibjörg Benediktsdóttir sem var efst hjá E-listanum fyrir fjórum árum ætlaði að leiða hann. „Þegar það komu ekki fleiri listar fram þá var ákveðið að láta kyrrt liggja svo ekki yrði sjálfkjörið. Við vildum að íbúarnir fengju að kjósa og hefðu sitt að segja um hverjir skipa sveitarstjórnina.“

Hólmavík Strandir Vestfirðir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is

Hitaveita handan við hornið?

Jón Gísli Jónsson oddviti segir unnið að ljósleiðaravæðingu í dreifbýlinu og hitaveita gæti orðið mikla lyftistöng fyrir sveitarfélagið. „Það er að mestu búið að leggja ljósleiðara sunnan við Hólmavík og verður nánast klárað fyrir norðan á næsta ári, ef ekki alveg. Þetta er samvinna ríkis og sveitarfélaga víða um land en tekur hins vegar bara til dreifbýlis. Þannig að þéttbýlið á Hólmavík verður út undan í þessu. Ef tækist að koma hitaveitu á koppinn þá yrði það sveitarfélaginu til mikils framdráttar og hagsbóta fyrir íbúa. Ef til hitaveituframkvæmdanna kemur þá væri hugsanlega hægt að leggja ljósleiðara um Hólmavík samhliða þeim og slá þannig tvær flugur í einu höggi.“

Haraldur V. A. Jónsson, fulltrúi óháðra í sveitarstjórn, tekur undir með oddvitanum bæði hvað snertir atvinnumálin og hitaveitu. „Í áratug eða meira hefur verið rætt um hitaveitu hér og hvaða leið ætti að fara í þeim efnum. Markvisst hefur verið unnið að því á þessu kjörtímabili og nú hillir undir málalyktir. Það er verið að gera kostnaðaráætlun og frumkönnun á því hvernig þetta verður hagkvæmast. Ef allt gengur eftir verður heita vatnið sótt yfir Steingrímsfjörðinn.“  

„Þetta er nauðsynleg framkvæmd jafnvel þótt sveitarfélagið liggi ekki á digrum sjóðum til að ráðast í verkefnið," segir Ingibjörg. „Stofna yrði sérfélag á vegum hreppsins, sambærilegt sorpsamlagi, til að sjá um framkvæmd og rekstur hitaveitu.“

Fólksfækkun erfið viðureignar

Sveitarfélagið glímir við fólksfækkun líkt og mörg önnur. Á undanförnum fimm árum hefur íbúum fækkaði um tæp 11% og voru 451 í byrjun þessa árs. Enn hefur fækkað segir Jón Gísli oddviti.  „Við verðum að snúa blaðinu við og fjölga íbúunum með öllum tiltækum ráðum. Stóra málið er hins vegar að finna leiðir til þess. Vissulega eru alltaf einhverjar hugmyndir á lofti en það getur reynst litlum sveitarfélögum erfitt og jafnvel nær ómögulegt að stuðla ein að beinni atvinnuuppbyggingu. Fleiri þurfa að leggja þar hönd á plóg.“

Ingibjörg segir nauðsynlegt að móta ítarlega stefnu í atvinnumálunum. „Til að laða fyrirtæki að sveitarfélaginu væri til dæmis hægt að bjóða þeim einhverjar ívilnanir fyrir að hefja hér starfsemi. Það gæti til að mynda verið afsláttur af ýmsum gjöldum eða annað í þeim dúr. Þótt sveitarsjóður yrði þannig af einhverjum tekjum til skamms tíma verður að hugsa lengra en það.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Oddvitinn segir innviði góða í Strandabyggð og þjónusta víð íbúana sé fjölbreytt. Vel sé staðið að skólamálum og til dæmis geti öll börn komist inn á leikskólann frá 9 mánaða aldri en þeim þyrfti þó að fjölga rétt eins og öðrum íbúum. Hann hafi hins vegar áhyggjur af framtíð sauðfjárbúskapar. „Bændur eiga undir högg að sækja. Margir þeirra eru orðnir nokkuð við aldur og ekki fyrirsjáanlegt að aðrir taki við keflinu. Þá er verður að jafna raforkukostnað milli dreifbýlis og þéttbýlis. Hér rétt fyrir utan Hólmavík kostar miklu meira að kynda hús en inni í þorpinu.“

Norður af Strandabyggð eru tvö fámenn sveitarfélög, Kaldrananeshreppur og Árneshreppur og í vestri er Reykhólahreppur með 60% íbúafjölda Strandabyggðar. Af og til hafa komið upp umræður um einhvers konar sameiningu á svæðinu en Jón Gísli segir ekkert slíkt í deiglunni nú. „Engu að síður er mín skoðun sú að það hljóti að vera framtíðin.“

Björn Friðrik Brynjólfsson
Fréttastofa RÚV