Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Samræma aðgerðir vegna misnotkunar lyfja

13.09.2019 - 10:37
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segist ætla að óska eftir því að ráðherrar komi saman og fari með markvissum hætti yfir hvað er verið að gera til að sporna við misnotkun á lyfjum og hvort fjármunum sé varið með réttum hætti þegar kemur að vímuefnavandanum. Þá þurfi að greina betur hvað stjórnvöld þurfi að gera í málaflokknum.

„Ég get tekið undir það að við erum með þannig kerfi þar sem hvert ráðuneyti og hver stofnun er svolítið að gera sitt,“ segir Katrín í samtali við RÚV núll. „Ég hef stundum sagt að það sem mér finnst mest krefjandi við að gegna embætti ráðherra, hvort sem það var menntamálaráðherra hér fyrr á árum eða forsætisráðherra, er að láta fólk stilla saman strengi,“ segir hún.

Að byggja upp samfélag þar sem foreldrar og börn hafi nægan tíma til samveru er einn mikilvægasti þátturinn í að berjast gegn fíkniefnum og öðrum heilsufarsvandamálum að mati Katrínar. Vímuefnavandann þurfi að nálgast á breiðum grunni. „Þegar við erum að bæta lífskjör fólks þá erum við auðvitað um leið að hugsa það sem ákveðna forvörn. Síðan eru auðvitað ákveðnar aðgerðir eyrnamerktar og þá getum við rætt til dæmis geðheilbrigðismálin. Það er alveg staðreynd að þar er málaflokkur sem þarf að gera betur í,“ segir hún. 

„Það sem ég ætla að gera - því ég held að það séu margir að gera margt mjög rétt - er að óska eftir því að allir þessir ráðherrar sem eru að vinna í þessum málum hver á sínu sviði komi saman og fari yfir þau með markvissum hætti. Ég held að það sem skiptir máli í þessum efnum er að við séum sannfærð um að við séum að verja fjármunum með réttum hætti og greinum það líka hvað vantar upp á,“ segir Katrín.

„Það er mitt hlutverk að láta þessi kerfi tala saman og ég hef þá sannfæringu að það sé búið að vera að gera margt þegar kemur að geðheilbrigðismálum og forvarnarmálum. Ég held að innan skólakerfisins sé líka verið að taka á þessum málum með góðum hætti víða. Við þurfum hins vegar að setja niður þessa heildarmynd. Af einhverjum ástæðum erum við að sjá þennan vanda í því umfangi sem við sjáum hann og við þurfum að skilgreina betur hvar götin eru í myndinni.“