Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Samráðsnefnd í viðbragðsstöðu

19.10.2015 - 21:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur sett samráðsnefnd um afnám hafta í viðbragðsstöðu og segir að tímaramminn sem slitabú föllnu bankanna hafi til að senda fullbúnar beiðnir um undanþágur frá gjaldeyrishöftum þrengist mjög.

Frestur slitabúa föllnu bankanna til að ná nauðasamningum og uppfylla skilyrði um undanþágur frá gjaldeyrishöftum rennur út um áramót, það er eftir tvo og hálfan mánuð. Þá fellur stöðugleikaskattur upp á 39% á búin. Fullyrt var í frétt Bloomberg í dag að ólíklegt sé að stjórnvöld fallist á þær tillögur sem slitabúin hafa þegar sent Seðlabankanum en samkvæmt þeim greiða þau samtals ríflega 330 milljarða króna í stöðugleikaframlag.

Fresturinn þykir skammur því eftir að slitabúin hafa sent Seðlabankanum endanlega fullbúnar beiðnir um undanþágur frá gjaldeyrishöftum sendir bankinn fjármálaráðherra álit um málið og hann fer með það fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og samráðsnefnd um afnám hafta. Boða þarf til kröfuhafafunda með tveggja vikna fyrirvara og afla samþykkis kröfuhafa. Nauðasamningana sjálfa þarf svo að fá samþykkta fyrir dómi en óvíst er hve langan tíma það tekur.

Þröngur tímarammi

Fjármálaráðherra segir málið nú komið á mjög góðan rekspöl: „Það er að þrengjast mjög tímaramminn. Við vissum það svosem allan tímann að við værum að setja þessu þröngan tímaramma. ég hef nefnt það hér á kynningu á málinu í þinginu að slitabúin þyrftu að hafa sig öll við til að þetta mál gengi upp tímalega séð en enn sem komið er held ég að enginn sé runninn út á tímafrestum.“

Stíf fundahöld

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur verið fundað stíft undanfarna daga, meðal annars í stýrinefnd um afnám hafta sem Bjarni leiðir. Hann hefur auk þess sett samráðsnefnd þingflokka um afnám haftanna í viðbragðsstöðu svo hægt verði að funda með skömmum fyrirvara, líklega á morgun: „Það er orðið tímabært að fara yfir það sem gerst hefur síðan slitabúin sendu stjórnvöldum erindi í júní. Það er að segja hvað hefur komið fram um það hvernig þau hyggist uppfylla stöðugleikaskilyrðin og hver staða stjórnvalda er vegna þeirrar vinnu.“

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV