Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Samningur vegna útgöngu Bretlands úr EES undirritaður

28.01.2020 - 16:38
Innlent · Bretland · Brexit
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, undirritaði í dag samning við Bretland vegna útgöngu Bretlands úr Evrópska efnahagssvæðinu. Utanríkisráðherrar Noregs og Liechtenstein undirrituðu samninginn á sama fundi.

Bretar ganga úr Evrópusambandinu á miðnætti á föstudag á grundvelli útgöngusamnings við sambandið. Bretar verða þó áfram hluti innri markaðar ESB til áramóta. 

Samningur Bretlands við Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES leysir úr viðeigandi útgönguskilmálum með sambærilegum hætti og gert er í útgöngusamningi Bretlands og ESB. Samningurinn á meðal annars að tryggja að Íslendingar sem búa í Bretlandi eða flytja þangað fyrir lok aðlögunartímabilsins, sem hefst frá útgöngudegi og stendur til loka árs 2020, geti verið þar áfram og að réttindi þeirra verði óbreytt. Það sama á að gilda um breska ríkisborgara sem búa á Íslandi.

Í samningnum er einnig að finna ákvæði um almannatryggingar og viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi. Þá er samningnum ætlað að greiða úr ýmsum úrlausnarefnum vegna útgöngu Bretlands úr EES á sviði vöruviðskipta, opinberra innkaupa, hugverkaréttinda, persónuverndar og tollamála.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að Ísland hefji brátt frekari samningaviðræður við Bretland um framtíðarsamskipti ríkjanna. Þær viðræður hefjist á aðlögunartímabilinu sem nú tekur gildi og fara fram samhliða samningaviðræðum Bretlands við Evrópusambandið.