Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Samningarnir tryggja framtíð fjölskyldubúsins

Mynd: RÚV / RÚV
Með nýjum búvörusamningum er staðinn vörður um framtíð fjölskyldubúsins og spornað gegn fækkun í bændastétt. Með afnámi kvótakerfisins er skilvirkni aukin og nýliðum gert auðveldara fyrir að hefja búskap. Þetta segir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Hann telur mikilvægt að matvæli séu framleidd hér á landi og horfir þar meðal annars til loftslagssjónarmiða. Hann telur að þeim tugmilljörðum sem verja á til að styðja við landbúnað næstu ár verði vel varið.

Staða smærri vinnsluaðila trygg

Ólafur M. Magnússon, forstjóri mjólkurbúsins, hefur lýst því yfir að með samningunum sé allt verðlagningarvald sett í hendur Mjólkursamsölunnar og hagsmunum sjálfstæðra afurðastöðva kastað fyrir róða. Sindri vísar því á bug. Hann segir stöðu smærri vinnsluaðila í mjólkuriðnaði trygga. 

Þingmenn þurfi tíma til að kynna sér samninginn

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingsflokksformaður Sjálfstæðisflokks og Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður flokksins, hafa lýst yfir andstöðu við að samningarnir nái fram að ganga. Sindri telur að bændur komi til með að samþykkja samningana. Sömuleiðis telur hann að þeir verði samþykktir á Alþingi.

„Ef þingmenn fá tíma til að skoða þetta og átta sig á því um hvað þetta snýst, það þarf að fara vel yfir þetta svo menn átti sig á því hver þýðingin er, þá hef ég enga ástæðu til þess að ætla að þetta verði fellt í þinginu.“