Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Samkomulag um umhverfismál

14.05.2019 - 14:19
default
 Mynd: G. Starri Gylfason - RÚV
Akureyrarbær ætlar í samstarfi við Vistorku ehf. að skerpa enn frekar á umhverfismálum í bænum og er með mörg járn í eldinum.

Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar og Vistorka ehf. skrifuðu á dögunum undir samkomulag um samstarf í umhverfis- og sorpmálum. 

Í tilkynningu frá Akureyrarbæ kemur fram að Vistorka ætli meðal annars að útbúa fræðsluefni um endurvinnslu og flokkun. Þá muni fyrirtækið einnig sjá um markvissa fræðslu í grunnskólum og stofnunum bæjarins, meðal annars um endurvinnslu, umhverfismál og loftslagsmál. 

Þá kemur Vistorka líka að loftslagsverkefni Festu og Akureyrarbæjar. Verkefnið felst í fræðslustarfi og hvatningu til fyrirtækja með það að markmiði að þau taki þátt í loftslagsyfirlýsingu bæjarins og framfylgi markmiðum hennar.