Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Samkomulag um sölu Iceland

16.02.2012 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Slitastjórnir Landsbankans og Glitnis hafa samið um sölu á Iceland Foods við fyrirtæki í eigu framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Slitastjórnirnar lána fyrir hluta kaupverðsins, sem er ríflega 300 milljarðar króna. Ef kaupin ganga eftir hækkar eignasafn Landsbankans um 94 milljarða frá síðasta mati.

Gamli Landsbankinn á 67 prósenta hlut í Iceland Foods og Glitnir 10 prósent. Viðræður hafa staðið yfir um sölu á þessum hlut og hefur baráttan staðið á milli tveggja fjárfestingasjóða og félags í eigu Malcolm Walker, forstjóra fyrirtækisins, og fleiri stjórnenda þess. Walker virðist hafa unnið þessa baráttu. Reuters fréttastofan hafði eftir honum í morgun að félag hans væri nú eitt í viðræðum um kaup á þessum hlut, en félag hans á fyrir 23 prósent í fyrirtækinu.

Kaupverðið er einn milljarður og fimm hundruð og fimmtíu milljónir punda, eða ríflega 300 milljarðar króna. Þar af renna 263 milljarðar til Landsbankans. Slitastjórnir bankanna munu lána fyrirtækinu fyrir hluta kaupverðsins. Daily Telegraph segir að lánsfjárhæðin sé 250 milljónir punda, eða tæpir 50 milljarðar króna. Samkvæmt heimildum fréttastofu er sú upphæð nærri lagi. Það er þá 16 prósent af kaupverðinu.

Þótt viðræður séu komnar á þetta stig er ekki búið að ganga endanlega frá kaupunum, en Walker segist búast við því að það verði gert á næstu tveimur til þremur vikum.

Þegar skilanefnd Landsbankans gaf síðast út mat sitt á eignum bankans í haust var hluturinn í Iceland metinn á einn milljarð punda, eða ríflega 500 milljónum punda minna en verðið sem nú er rætt um. Samkvæmt því mati áttu eignir Landsbankans að duga upp í forgangskröfur og gott betur. Ef þetta verð gengur eftir hækkar verðmæti eignasafns bankans um 94 milljarða króna. Það er því enn líklegra en áður að eignir bankans dugi fyrir Icesave-skuldinni.