Hundrað og sextíu milljörðum verður varið til nýframkvæmda og viðhalds vega og samgöngumannvirkja á næstu fimm árum. Samgönguráðherra kynnti í gær lauslega samgönguáætlun til næstu fimmtán ára.
„Svo ég kannski horfi á það sem okkur snýr, þá er samgönguáætlun nokkur vonbrigði. Það á ekki að ljúka við tvöföldun á Reykjanesbrautinni fyrr en 2033. Og í því samhengi er kannski rétt að nefna það að nýskráning á dísel- og bensínbílum verður bönnuð árið 2030, þannig að þetta bann verður búið að vera í gildi í 3 ár ef fer fram sem horfir. Við erum líka að sjá ISAVIA er að gera ráð fyrir því að það verði 10 milljónir farþega sem fari um Keflavíkurflugvöll á þessu ári. Árið 2033 er gert ráð fyrir að það verði 18 milljónir farþega og maður spyr sig hvernig á að koma þessu fólki til og frá. Þetta snýr ekki eingöngu að íbúum á þessu svæðis heldur er þetta bara öryggi allra sem fara hérna um Reykjanesbrautina,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Berglind segir að umferðarteppur myndist oft á brautinni.
„Reykjanesbrautin sem fer í gegnum Reykjanesbæ, sker hann í tvennt, þar eru ekki mislæg gantamót. Það er búið að setja hringtorg en það kom í kjölfarið á dauðaslysum og okkur finnst þetta einfaldlega of hátt verð að greiða,“ segir Berglind.
Samgönguráðherra sagði í fréttum RÚV í gær að flýta mætti einstökum framkvæmdum á Samgönguáætlun með því að taka upp gjaldtöku.
„Fólk er að sækja vinnu og skóla á höfuðborgarsvæðið og þetta gæti orðið íþyngjandi fyrir okkar íbúa,“ segir Berglind.
Fyrrverandi samgönguráðherra og núverandi varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis tekur undir með núverandi samgönguráðherra að taka þurfi upp gjaldtöku.
„Taka þessar stóru fjárfreku framkvæmdir út fyrir sviga, fjármagna þær með gjaldtöku, síðan að jafna þeirri gjaldtöku á landsmenn,“ segir Jón Gunnarsson, fyrsti varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.
Þannig megi stíga stærri skref í vegaframkvæmdum. Samgönguáætlunin er til fimmtán ára og er skipt niður í þrjú tímabil.
„Hún er mjög afturþung þessi áætlun eins og hún lítur. Mér finnst engar forsendur vera fyrir því sem reiknað með á tímabili 2 og 3 sem er eftir fimm til tíu ár og tíu til fimmtán ár. Þar er gert ráð fyrir verulegri aukningu í framlögum frá því sem er á fyrsta tímabili. Ég sé ekki neinar væntingar í ríkisfjármálum sem geta stutt við þá áætlun. Þannig að það er líka ljóst að það er verið að sýna á einhver spil sem ekki verður hægt að standa við nema til komi eitthvað alveg sérstakt og nýtt,“ segir Jón.