Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Samfylkingin komin undir 10%

08.07.2015 - 14:29
Árni Páll Árnason í ræðustól eftir að tilkynnt var um endurkjör hans sem formanns Samfylkingarinnar 20.3.2015.
Árni Páll Árnason sigraði í formannskjöri Samfylkingarinnar í mars með einu atkvæði meira en mótframbjóðandi hans. Mynd: RÚV
Píratar eru stærsti stjórnmálaflokkurinn, með þriðjungs fylgi, samkvæmt nýrri könnun MMR. Samfylkingin mælist með 9,3% fylgi og hefur aldrei mælst minni frá stofnun flokksins, hvorki hjá MMR né Gallup.

Fylgi Pírata mælist nú 33,2%, borið saman við 32,4% í síðustu könnun. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 23,8% hjá MMR, en var 23,3% í síðustu könnun. Vinstri-græn mælast með 12% fylgi, en mældust með 10,5% síðast. Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 10,6%, en var 10% síðast. Samfylkingin fengi 9,3%, borið saman við 11,6% í síðustu könnun. Fylgi Bjartrar framtíðar mælist 5,6%, en var 6,8% síðast. Aðrir flokkar mælast með innan við 2% fylgi. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 30,4%, en var 31,9% síðast, og 29,4% í maí.

Samfylkingin var formlega stofnuð 5. maí 2000 til að leiða saman vinstrimenn úr mörgum flokkum. Árið áður höfðu flokkarnir boðið fram sameiginlega til Alþingis undir merkjum Samfylkingarinnar sem fékk 26,8% fylgi á landsvísu. Mest fékk flokkurinn 31% atkvæða í Alþingiskosningum 2003, en 29,8% árið 2009.

Flokkurinn hefur ekki áður mælst með minna en 10% fylgi frá stofnun, í könnunum MMR og Þjóðarpúlsi Gallups. Mælingar MMR ná aftur til haustsins 2008. Næstminnsta fylgi Samfylkingarinnar þar var 10,4% í apríl 2013. Minnsta mælda fylgi flokksins hjá Gallup var 11,4% í síðasta Þjóðarpúlsi.

Nýjasta könnun MMR var gerð á tímabilinu 24. til 30. júní.

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV