Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Samfylking og VG fá endurtalningu

Mynd með færslu
 Mynd: Hafnarfjarðarbær
Tvö framboð í Hafnarfirði hafa farið fram á endurtalningu atkvæða eftir kosningarnar í gær. Það eru Samfylking og Vinstri græn, en það munaði einungis nokkrum atkvæðum á að Samfylking næði öðrum manni inn í bæjarstjórn og að VG næði inn manni. Formaður yfirkjörstjórnar Hafnarfjarðar ákvað að verða við óskinni og segir að það verði talið aftur á morgun.

Munaði fimm atkvæðum hjá VG

Talin voru 10.770 atkvæði í Hafnarfirði í gærkvöld og nótt. Samfylking missti einn bæjarfulltrúa og er með tvo, og Vinstri græn misstu sinn eina mann. Það munaði um 10 atkvæðum að Samfylking héldi sínum þriðja manni og fimm atkvæðum að Vinstri græn héldu sínum eina. 

Þórdís Bjarnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar Hafnarfjarðar, staðfestir í samtali við fréttastofu að flokkarnir hafi farið fram á þetta og ákveðið hafi verið að verða við þeirri ósk. Talningarfólk verður kallað saman á morgun og öll 10.770 atkvæðin talin aftur.

Líka talið aftur 2014

Píratar fóru fram á endurtalningu í Hafnarfirði í kosningunum 2014, þegar munaði þremur atkvæðum. Orðið var við því, en það breytti engu um niðurstöðuna. 

Að sögn Þórdísar mun endurtalningin á morgun sennilega taka um fjórar klukkustundir, með átta talningarmönnum. Hún undirstrikar að heildartalning atkvæða hafi stemmt. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV