Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samfélagið sparar milljarð á bólusetningu

08.06.2019 - 21:11
Mynd með færslu
 Mynd: Þorsteinn Magnússon - RÚV
Bólusetning við pneumókokkum hefur sparað íslensku samfélagi um milljarð á fimm árum, þrátt fyrir að bóluefnið sé eitt hið dýrasta í heimi. Elías Eyþórsson, læknir segir að röra-aðgerðum við eyrnabólgu hafi þó ekki fækkað.

Byrjað var að bólusetja við pneumokokkum fyrir sjö árum. „Markmiðið með rannsókninni var að meta áhrifin af því að bólusetja heila þjóð gegn einhverri ákveðinni bakteríu,“ segir Elías.

Pneumókokkar geta valdið alvarlegum sýkingum eins og heilahimnubólgu og blóðsýkingu en líka hvimleiðum eyrnabólgum, sem hafa valdið svefnlausum nóttum á íslenskum heimilum í gegnum tíðina. Eftir að byrjað var að bólusetja við þeim hefur sýkingum vegna bakteríunnar fækkað töluvert í öllum aldursflokkum. 

„Miðeyrnabólgum hefur fækkað um sirka 10 þúsund, lungnabólguinnlagnir hérna á spítalanum um 1500 og ífarandi pneumókokka sýkingum um 140,“ segir Elías jafnframt.

„Þegar þetta er allt tekið saman, bæði beini kostnaðurinn og svo sparnaðurinn af öllu þessum sýkingum, þá erum við að sjá að þetta bóluefni sem er almennt talið frekar dýrt í bóluefnisheiminum er að spara íslenskt þjóðfélag eitthvað um milljarð á fyrstu fimm árunum frá innleiðingu þess. Sparnaðurinn verður enn þá meiri þegar við tökum síðustu árin með í reikninginn líka.“

Í öðrum löndum hefur bóluefnið fækkað röraaðgerum gegn eyrnabólgu, en ekki hér á landi. „Það er margt sem gæti komið þar inni og ég kannski hef ekki alveg sérþekkinguna til að ræða það en það er eitthvað sem gjarnan mætti skoða,“ segir Elías að lokum.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV