Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Sameiningu skólanna hafnað

12.03.2011 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Um þrjú hundruð manns mættu á fund með borgarstjóra Reykjavíkur í Rimaskóla þar sem fyrirhuguð sameining leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila var kynnt í morgun. Fundurinn hafnaði tillögum borgaryfirvalda um sameiningu grunn- og leiksskóla.

Mikill hiti var í fundarmönnum og tóku íbúar yfir fundarstjórn til að geta breytt dagskrá fundarins. Þetta er fyrsti fundurinn í fundaröð borgarstjóra í öll hverfi borgarinnar þar sem á að kynna sameiningarnar. Jón Gnarr og Oddný Sturludóttir formaður menntaráðs borgarinnar, voru með erindi á fundinum.

Fundurinn hafnaði fyrirliggjandi tillögum um sameiningar í leik- og grunnskólum Grafarvogs. Í ályktun fundarins eru vinnubrögð starfshóps undir forsæti Oddnýjar Sturludóttur átalin. Niðurstaða starfshópsins sé órökstudd og illa ígrunduð. Fundarmenn telja að engan veginn sé sýnt fram á faglegan eða fjárhagslegan ávinning í tillögum starfshópsins. Fundurinn hafnar alfarið tillögum starfshópsins um sameiningar skóla í Grafarvogi.

Klukkan tvö síðdegis hitti borgarstjóri íbúa í Breiðholti. Fyrirhuguð sameining heftur einna mest áhrif í þessum tveimur borgarhlutum en fjórir grunnskólar í Grafarvogi, Engjaskóli, Korpuskóli, Borgarskóli og Húsaskóli verða sameinaðir í tvo. Þá verða tíu leikskólar í Breiðholti sameinaðir í fimm auk þess sem Fellaskóli og Hólabrekkuskóli verði aldurskiptir.