Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sameining til skoðunar á Austurlandi

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Nýtt fimm þúsund manna sveitarfélag gæti orðið til á Austurlandi á næstunni. Nú standa yfir viðræður um mögulega sameiningu Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Fljótsdalshéraðs. Ljóst er að nýtt sveitarfélag yrði gríðarlega víðfeðmt og næði í raun að umfaðma tvö önnur sveitarfélög, Fjarðabyggð og Fljótsdalshrepp.

„Þetta er dálítið óvenjuleg sameining en leiðir líka einfaldlega af því að þetta eru sveitarfélög sem að kannski tengjast í gegnum þennan miðkjarna á Egilsstöðum. Menn eru að sækja þjónustu þangað og annað. Þetta eru sveitarfélög sem hafa átt í mjög góðu samstarfi, eru meðal annars með sameiginlega félagsþjónustu og fleira,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Gangi undirbúningur að óskum væri mögulegt að halda íbúakosningu um sameiningu í nóvember. Stefán Bogi segir að það gæti þó dregist aðeins ef móta þurfi tillögur betur. Eins og staðan er í dag, sé þó ekkert sem bendi til þess. 

Meðal þeirra hugmynda sem komið hafa upp er að starfrækt verði héraðsráð á hverjum stað, verði af sameiningu. Hlutverk þeirra á að vera að varðveita sjálfsákvörðunarrétt minni byggðakjarna. „Þetta held ég að sé alveg nauðsynlegt til að koma til móts við áhyggjur af því að allt vald og áhrif hverfi inn á miðsvæðið,“ segir Stefán Bogi. Það hefi komið upp eftir sameiningar og sýnt sig í niðurstöðum kannana að íbúar á jöðrum sveitarfélaga telji að þeir hafi misst tengsli við stjórnsýsluna. „Við viljum stíga mjög ákveðin skref strax í upphafi til að koma í veg fyrir að það verði tilfellið. Við þekkjum það ágætlega á svæðinu hérna að vera á jaðri og hvernig það er að sjá svolítið völd og áhrif hverfa að stóra miðpunktinum. Við viljum kannski ekki að okkar eigin íbúar upplifi það í sínu eigin heimasveitarfélagi.“

Nýja sameinaða sveitarfélagið myndi umlykja Fjarðabyggð og Fljótsdalshrepp. Stefán Bogi segir að samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar hafi síður verið áhugi á sameiningu meðal íbúa þar. Þau séu þó ákvallt velkomin til að taka þátt í sameiningarviðræðum og að forsvarsmenn þeirra viti af því.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir