Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sameinað sveitarfélag gæti aukið þjónustu

04.04.2019 - 09:34
Farið er að skýrast hvernig málum yrði háttað ef sveitarfélögin Borgarfjarðarhreppur, Djúpivogur, Fljótsdalshérað og Seyðisfjörður yrðu sameinuð. Starfshópur telur að nýtt sveitarfélag ætti að hafa svigrúm til að auka þjónustu. Á borgarafundum geta íbúar haft áhrif á stefnu nýs sveitarfélags ef sameining verður samþykkt.

Seyðfirðingar fjölmenntu í Herðubreið í fyrrakvöld til að kynna sér hugmyndir um sameinað sveitarfélag. Borgfirðingar hittust kvöldið áður og í gær Djúpavogsbúar.  Samkvæmt tillögum málefnahópa yrði stjórnsýsla einfölduð, fagnefndum fækkað í þrjár en þær myndu funda oftar: Auk sveitastjórnar yrðu byggðarráð, fjölskylduráð og umhverfisráð. Þá myndi starfa þriggja manna heimastjórn á hverjum stað.

Íbúunum var skipt í hópa sem skeggræddu ýmsar hliðar sameiningar. „Við drögum fram þeirra sjónarmið, hverju eru þau sammála og hverju eru þau ósammála af því sem við ræðum hér í kvöld. Hvaða áskoranir eru, hvað þurfum við að varast, hvað þurfum við að varðveita og hvaða tækifæri liggja þá í sameiningu þessara fjögurra sveitarfélaga. Við drögum niðurstöðurnar saman og byggjum ofan á hugmyndirnar sem eru komnar nú þegar endanlegar tillögur sem verða lagðar fyrir sveitarstjórnirnar í maí og byrjun júní,“ segir Róbert Ragnarsson hjá RR-ráðgjöf.

Fram kemur í minnisblöðum málefnahópa að sveitarfélagið yrði fjárhagslega sjálfbært, ekki þörf á að hagræða heldur svigrúm til að auka þjónustu. Skólar yrðu áfram á öllum stöðum og hægt að bæta þjónustu með því að samnýta fagfólk og auka val nemenda með fjarkennslu. Nýtt sveitarfélag gæti fjárfest fyrir 235-485 milljónir á ári. Ýmsu er þó enn ósvarað eins og hverjar tekjur yrðu úr jöfnunarsjóði, hve hátt ríkisframlag fengist til að efla stjórnsýslu vegna sameiningar og til að jafna mismunandi skuldir sveitarfélaganna. Helsta baráttumálið yrðu samgöngubætur, heilsársvegur yfir Öxi, Borgarfjarðarvegur, þróun Egilsstaðaflugvallar og að hönnun Fjarðarheiðarganga komist á fjárlög næsta árs. „

Síðasti íbúafundurinn í þessari lotu verður í Valaskjálf á Egilsstöðum í kvöld en honum verður einnig streymt á vefnum. Hér verður hægt að fylgjast með fundinum.

Stefnt er að kosningu um sameininguna í lok október eða í nóvember.

Sjá má minnisblöð starfshópa á sérstökum vef um sameininguna.