Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sameiginlegt markmið að hækka lágmarkslaun

11.10.2018 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins vill kjarasamning til þriggja eða fjögurra ára og að haldið verði áfram við að hækka lágmarkslaun í landinu. Hvort hægt sé að verða við kröfum Starfsgreinasambandsins um 425.000 króna lágmarkslaun fari eftir því hvort fyrirtækin í landinu geti staðið undir þeim.

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins samþykkti í gær kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga. Þar er þess meðal annars krafist að samið verði til þriggja ára og að lágmarkslaun í landinu verði 425.000 krónur í lok samningstímans, en þau eru nú 300.000 krónur með tryggingu. Halldór Benjamín Þorgbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að það væri mjög æskilegt að semja til þriggja eða fjögurra ára.

„Ég fagna því að kröfugerðin sé komin fram. Samtök atvinnulífsins kynntu sínar samningsáherslur í síðustu viku. Þannig að nú hafa bæði SA og SGS lagt fram hvert þau vilja beina sjónum sínum í komandi kjaraviðræðum. Og ég lít svo á að næstu vikur muni snúast um það að bryggja brýr á milli annars vegar kröfugerðar SGS og hins vegar samningsáherslna SA. Það er verkefni okkar,“ segir Halldór Benjamín.

Eru miklar brýr sem þarf að byggja þar á milli?

„Ég held að það sé nú alltaf þannig. Það sem okkur hefur tekist á undanförnum árum er heilmargt. Okkur hefur tekist í sameiningu, atvinnurekendum og launþegahreyfingunni, að hækka laun um um það bil 30% og lágmarkslaun um 40%. Og það hefur tryggt okkur rétt tæplega 25% kaupmáttaraukningu sem skilar sér til allra Íslendinga. Það er markmiðið og við eigum að reyna að halda áfram á þeirri braut. Og vörður á þeirri leið geta sannarlega verið hlutir sem SGS og SA hafa nefnt í sínum áherslum; húsnæðismarkaðurinn, sveigjanlegri vinnutími og stytting heildarvinnutíma í landinu. Þannig að já, ég vil meina að það séu fjöldamargir fletir sem við getum rætt áfram og það er sannarlega verkefni næstu vikna.“

Starfsgreinasambandið vill samning til þriggja ára, kemur það til greina?

„Ég held að það sé mjög æskilegt að semja til þriggja eða fjögurra ára. Samningaviðræður eru þess eðlis að báðir aðilar þurfa að gefa eitthvað eftir og miðla málum. Ég er mjög hlynntur því, og sömuleiðis Samtök atvinnulífsins, að við tryggjum stöðugleika og frið á vinnumarkaði til langs tíma. Hvort það eru þrjú eða fjögur ár verður bara að koma í ljós.“

Snýst um tíma

Sambandið krefst þess að lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstímans, kemur það til greina að mati SA?

„Það er svo sem sameiginlegt markmið okkar allra, sama hvort það er launþegahreyfingin eða atvinnurekendur, að lyfta lágmarkslaunum. Og það höfum við sannarlega gert á undanförnum árum með því að hækka lágmarkslaun um 40% á örfáum árum. Ég hygg að það sé verðugt verkefni fyrir okkur til framtíðar að halda áfram á þeirri leið. En í hve stórum skrefum, það er eitthvað sem við þurfum að ræða á komandi vikum í samningaviðræðum okkar við Starfsgreinasambandið.“

En kemur til greina að hækka lágmarkslaunin í 425.000 krónur?

„Ég held að þetta snúist meira um tímann. Við þurfum að átta okkur á því hver staðan er í íslensku atvinnulífi og hver geta fyrirtækjanna er til þess að standa undir þessu. Það er því miður ekki þannig að það verði til einhver verðmæti við undirritun kjarasamninga. Verðmætin verða til í atvinnulífinu og á endanum þurfa fyrirtækin að geta staðið undir þeim kröfum sem á herðum þeirra eru reistar. Og um það verða þessar samningaviðræður að snúast eins og allar kjaraviðræður. Við þurfum að átta okkur á hvað sé til skiptanna og með hvaða hætti sé hægt að skipta því.“

Í kröfugerð Starfsgreinasambandsins er einnig uppi krafa um að stytta vinnuvikuna niður í 32 klukkustundir á samningstímanum.

„Eins og sakir standa eru Íslendingar að vinna mjög mikla yfirvinnu. Og afstaða SA hefur verið sú að það sé eðlilegast að byrja á þeim enda, að við reynum að draga verulega úr yfirvinnu í samfélaginu. Og þegar því marki er náð sé sjálfsagt að skoða frekari styttingu vinnuvikunnar,“ segir Halldór Benjamín.