Sambúðin sem má ekki skrá í þjóðskrá

Mynd: Oddrún Vala og Ragnheiður Gyð / Oddrún Vala og Ragnheiður Gyð
Af hverju máttum við ekki skrá okkur í sambúð? Spyrja systurnar Oddrún Vala og Ragnheiður Gyða Jónsdætur. Þær hafa rekið saman heimili í hartnær þrjátíu ár og ólu dóttur Ragnheiðar upp í sameiningu. Eru gild rök fyrir því að skylt fólk megi ekki búa saman og njóta sömu réttinda og óskyld hjón eða pör? Þarf að endurskoða það hvernig við hugsum um fjölskyldur? Spegillinn kíkti í heimsókn til systranna, ræddi við þær um sambúðina sem ekki má skrá hjá Þjóðskrá og fékk álit lögfræðiprófessors.

Bjuggu saman af efnahagslegum ástæðum

„Þetta hefur gengi ótrúlega vel öll þessi þrjátíu ár, reyndar erum við aldar upp saman, það kom bara smá hlé þarna í millitíðinni.“ segir Ragnheiður Gyða.

Þær fóru báðar til útlanda í nám, þegar þær komu heim aftur leigðu þær íbúð í miðbænum með fleira fólki. Þegar á leið fór að kvarnast úr hópnum, sambýlingarnir fóru sumir út til náms og svo varð Ragnheiður ófrísk. „Við ákváðum, aðallega af efnahagslegum ástæðum, að halda þessu sambýli áfram, “ útskýrir hún. 

Það þurfti að finna nafn sem var meira en frænka

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Oddrún og Súpa.

Systurnar fluttu í fallegt bárujárnshús í Skerjafirði, bjuggu fyrst á jarðhæð en fluttu sig síðar upp á efri hæðina. Stúlkan sem þær ólu upp er löngu flutt að heiman. Nú búa þær þarna tvær með læðunni Súpu. Ragnheiður er kölluð Aggí en Oddrún hefur fengið viðurnefnið Mosi, það er stytting á Moster - móðursystir. „Ég náttúrulega tók þátt í uppeldi hennar og það varð að finna á mig eitthvert nafn sem var aðeins meira en frænka,“ segir Oddrún. 

„Þær eru ekki lesbíur“

Hafa þær orðið fyrir fordómum? Voru þær einhvern tímann kallaðar piparjúnkur eða þvíumlíkt? „Nei, ekkert þannig en þegar barnið var ungt, áður en hún náði tíu ára aldri og kom heim með nýja skólafélaga eða vini, þá byrjaði hún alltaf á því að segja nei, þær eru ekki lesbíur heldur systur. Mesta furðu vakti þó þetta nafn og þau spurðu, af hverju kallarðu hana Monster?“ segir Oddrún Vala

„Margt sem við þurfum ekki að eyða tíma í að tala um“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Systurnar Oddrún og Ragnheiður á heimili sínu í Skerjafirði.

Þær segja ýmsa kosti felast í þessu sambúðarformi. „Aðallega það að við erum aldar upp af sama fólkinu og gerum hlutina eins eða mjög keimlíkt, það er lítið um hvunndagsárekstra yfir smáhlutum, eins og viskustykkjum eða tannkremstúbum, hvernig á að kreista þær og svona eða hvernig á að búa um rúm, þetta bara rúllar,“ segir Ragnheiður Gyða.

„Þú veist alveg að skærin eru í skæraskúffunni, það er gengið frá, við bara kunnum það báðar,“ segir Oddrún. 

„Og það er svo margt sem við þurfum ekki að eyða tíma í að tala um því það er bara sjálfvirkt, nema kannski stundum pólitík og ástand heimsins. Við getum tekist á um það, erum samt sammála en önnur kannski eilítið fasískari en hin,“ segir Ragnheiður.

Skotin fljúga: Rýmisgreind og eldamennska

„Svo skiptist þetta náttúrulega svolítið, það er til dæmis mikill skortur á verkfærni hjá annarri, rýmisgreindin er engin þannig að það að dytta að og smíða og laga, sauma það lendir mjög mikið á annarri en aftur á móti er hin mikið betri í dílingum og vílingum, fjármálalega séð og svoleiðis, segir Oddrún Vala.

„Og, eldhúsinu,“ skýtur Ragheiður Gyða inní. „Þú eldar ekkert.“  

„Jú,“ maldar Oddrún í móinn, segist elda gamaldagsmat og baka jólakökuna þó hún borði hana ekki sjálf. „Það er ofboðslega gaman að fara út að borða hvort sem það er hérlendis eða erlendis en ég fæ hvergi nokkurs staðar jafngóðan mat og hér, “ segir hún og vísar þar til eldamennsku systur sinnar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Ragnheiður Gyða.

Geymdi sumarfrísdaga til að eiga í flensutíð

Systrunum finnst ákveðin mismunun felast í því að hafa ekki mátt skrá sig í sambúð. „Þegar maður horfir til baka sér maður, já þetta stendur og þetta stóð óskyldum aðilum í sambandi til boða en þetta hefur aldrei staðið mér til boða því þetta sambúðarform skyldra er bara ekki löglegt, með öllum þeim, innan gæsalappa, hlutum sem tekið er tillit til þegar tveir óskyldir eru í sambúð, skattaafslættir og annað, og í vinnunni, ég náttúrulega el barnið upp með henni en ekki opinberlega, ég fékk ekki veikindadaga fyrir barnið þannig að ég tók alltaf nokkra sumarfrísdaga og geymdi þá til að eiga yfir veturinn þegar pestirnar gengu yfir,“ segir Oddrún. 

„Þegar ég gat það ekki,“ bætir Ragnheiður við.  

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Oddrún Vala.

Skilyrði að mega gifta sig

Spegillinn hafði samband við Þjóðskrá og bað um skýringar á því hvers vegna systurnar gætu ekki skráð sig í sambúð. Þjóðskrá vísar til fimmtu greinar laga um lögheimili og aðsetur þar sem segir að til að tveir einstaklingar megi skrá sig í sambúð verði þeir að uppfylla hjónavígsluskilyrði hjúskaparlaga. 
Í níundu grein hjúskaparlaga stendur: Hvorki má vígja skyldmenni í beinan legg né systkin. Þær eru auðvitað ekki að falast eftir því að fá að gifta sig, en þetta er fyrirstaðan - til að mega skrá sig í sambúð þyrftu þær að uppfylla skilyrði til að mega gifta sig. 

„Þetta er vissulega ráðahagur“

Í huga systranna ætti þetta að vera viðurkennt sambúðarform, eins og hjónaband eða sambúð. Það sama ætti að ganga yfir alla og þær segja að stjórnvöld þurfi að laga sig að þörfum samfélagsins.

„Mér fyndist það algjörlega sjálfsagt, er það að halda heimili ekki einskonar fyrirtæki?“ Oddrún Vala

„Þetta er vissulega ráðahagur, alveg eins og hjónaband eða sambúð og þetta á sjálfsagt eftir að þróast enn frekar. Er þetta ekki um samfélagið?  Eiga ekki stjórnvöld að taka á því samfélagi sem við þeim blasir, ef fólki finnst betra að búa saman, fáir eða margir í hóp, er eitthvað að því?“ Spyr Ragnheiður.

„Ef maður lítur á baráttu hinsegin fólks, þau eru loksins komin á sama stað, er ekki hægt að víkka þetta út?“ Spyr Oddrún.

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnheiður Gyða og Oddrún Val
Jól. Ragnheiður með Oddrúnu litlu systur í fanginu.
Mynd með færslu
 Mynd: Oddrún Vala og Ragnheiður Gyð
Systurnar sem börn.

Flestir virðast falla að kjarnafjölskylduflokkuninni

Er þetta algengt? Foreldri og uppkomið barn sem halda saman heimili? Þrír ættliðir? Nánir vinir eða systkini sem búa saman alla tíð? Hversu algengt er að fólk búi með slíkum hætti? Líklega ekki mjög. Langflestir virðast falla að kjarnafjölskylduflokkum Hagstofunnar; eru í sambúð eða hjónabandi, með eða án barna, teljast til einstæðra foreldra eða búa einir. Í manntalinu sem Hagstofan tók árið 2011 kom í ljós að á átta prósentum heimila bjuggu tvær eða fleiri fjölskyldur saman eða ein fjölskylda með einhverjum óskyldum. Það er ekki víst að þetta eigi við um það þegar þrír ættliðir búa saman, eða tvær barnafjölskyldur. Að sögn Ómars Harðarsonar, fagstjóra á Hagstofunni, gætu heimili lent í þessum flokki vegna leigjanda sem kannski leigir stúdíóíbúð með sérútgangi og tilheyrir ekki fjölskyldunni. Á 3,5% heimila bjuggu tveir eða fleiri einstaklingar sem ekki voru í sambúð eða hjónabandi, ekki var spurt frekar um tengsl þeirra og því liggur ekki fyrir hvort þetta er skylt fólk eða óskylt. Líklega verður flokkunin endurskoðuð fyrir næsta manntal árið 2021, þannig að skýrari mynd fáist af því hvernig fólk býr. 

Segir löggjafann líta parsambönd sérstökum augum

Spegillinn spurði Hrefnu Friðriksdóttur, prófessor í fjölskyldu- og erfðarétti við Háskóla Íslands, hvort það væri hægt breyta kerfinu og útvíkka réttindin? Væri það kannski lítið mál? „Auðvelt myndi ég aldrei nokkurn tímann kalla það, við erum að skoða þarna ansi stóra og flókna mynd af fjölbreyttum velferðarstuðningi,“ segir Hrefna.  

Mynd með færslu
Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fjölskyldu- og erfðarétti Mynd: RÚV
Hrefna segir gengið út frá því að það sé eðlismunur á sambúð para og sambúð fólks sem ekki á í ástarsambandi.

Kerfið gerir skýran greinarmun á hjónum og pörum annars vegar og einstaklingum hins vegar, jafnvel þó þeir velji að búa saman. Hrefna segir löggjafann ganga út frá því að hjón og pör deili lífi sínu með sérstökum, persónulegum og tilfinningalegum hætti. „Það eru sterkar vísbendingar um að það fólk hafi að einhverju leyti aðrar þarfir en einstaklingar, jafnvel einstaklingar sem velja að búa saman og eru með einhver verkefni í sameiningu. Það eru ýmsar vísbendingar um að það fólk sé ekki að hugsa sig sem einingu í sama mæli og hjón og sambúðarfólk og það er alls ekki víst að það myndi kæra sig um þær skyldur sem fylgja parsambandinu. Þetta er jú blanda af réttindum og skyldum,“ segir Hrefna.  

Það þurfi að rannsaka hvort þarfirnar séu sambærilegar

Það er munur á réttindum og skyldum hjóna og réttindum og skyldum sambúðarfólks. Hjón erfa hvort annað og í hjónabandi gildir gagnkvæm framfærsluskylda. Í tilfelli sambúðarfólks er hvorki framfærsluskylda né erfðaréttur en réttur til samsköttunar vegna þess að löggjafinn hafi litið svo á að sambúðarfólk reiði sig á hvort annað tilfinningalega, persónulega og fjárhagslega. Hrefna varar við því að fara of geyst í að skrá vini, systkini eða foreldri og uppkomið barn í sambúð, fyrst þurfi að rannsaka hvort þarfir þeirra séu sambærilegar þörfum hjóna eða para. 

Sambúð borgi sig ekki endilega fyrir einstæða móður

Í dæmi sambærilegu Ragnheiðar og Oddrúnar þar sem systur búa saman með barn annarrar telur Hrefna að það mætti horfa til hvers þjónustuþáttar fyrir sig og huga að því hvernig best mætti koma til móts við þarfir barnsins. Það þurfi þá að taka tillit til þess hvort fleiri séu í lífi þess. Hún telur sambúð ekki endilega borga sig fjárhagslega fyrir móður í þessum aðstæðum. „Þarna hefur móðirin verið meðhöndluð sem einstaklingur og því að mörgu leyti verið í betri stöðu en hún hefði verið sem hluti af einingu.“

Hrefna segir að hugsanlega mætti koma til móts við þarfir fólks sem er í sömu stöðu og Oddrún var í með því að skilgreina umönnunarábyrgð með öðrum hætti en nú er gert þannig að tekið sé tillit til fólks sem sannarlega sinnir umönnun barns burt séð frá því hvernig það tengist barninu. Það mætti gera þetta í bótakerfinu, á vinnumarkaði og hugsanlega með samsköttun.

Ekki víst að línan hafi verið kórrétt dregin

Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Nú er miðað við hjónaband eða sambúð. Hrefna segir erfitt að fullyrða um hvort það séu rétt viðmið.

Heilt yfir segir Hrefna flókið mál að ákvarða til hvers væri rétt að taka tillit í sambúð systranna. „Væri það í þeirra innbyrðis samskiptum, meðan þær eru saman, eftir að þær eru ekki lengur saman ef eitthvað kemur upp á, eða eftir að önnur þeirra fellur frá, er það það sem þær vilja? Það getur orðið erfitt að draga línuna í þessu og ekki einu sinni víst að það sem þeim fyndist best í ákveðnu samhengi kæmi best út þegar á heildina væri litið. Það er ekki auðvelt verkefni að ákveða hvenær á að taka tillit til náinnar persónulegrar samstöðu. Þar með er ég ekki að segja að við höfum endilega dregið línuna kórrétt eins og hún er í dag, það getur vel verið að við eigum að skoða betur hvort það eru aðrir hópar en þetta klassíska parsamband þar sem eru einstaklingar sem eru raunverulega búnir að rugla saman reitum með þessum einstaka hætti.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi