Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sambandið ánægt með nýjan sáttmála

01.12.2017 - 14:49
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Enginn stjórnarsáttmáli undanfarna áratugi hefur lagt jafn mikla áherslu á málefni sveitarfélaga og sá sem fram kom í gær og það er ánægjuefni. Þetta segir framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann er bjartsýnn á að loforðin verði að veruleika.

Boða aukið samráð við sveitarfélögin

Í nýjum stjórnarsáttmála segir um byggðamál að landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt. Ríkisstjórnin ætli að auka samráð við sveitarfélögin um verkefni þeirra og fjárhagsleg samskipti. Þá þurfi að skilgreina hlutverk landshlutasamtaka og styrk sveitarfélaga til að rísa undir nauðsynlegri þjónustu. 

Ánægður með byggðaáherslurnar

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir í samtali við Fréttastofu að margt mjög gott sé í sáttmálanum gagnvart sveitarfélögunum og lýsir yfir ánægju sinni með það hversu mikil byggðaáhersla sé í honum. 

„Sambandið hefur beitt sér mjög mikið undanfarið fyrir eflingu sóknaráætlana landshluta og þess vegna er það mjög mikið fagnaðarefni hvað er mikil umfjöllun um þær og að það eigi að efla þær,” segir Karl. Hann lýsir einnig yfir ánægju með áherslu ríkisstjórnarinnar á að ræða betur tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og fjármögnun sveitarstjórnarstigsins. 

„Auðvitað eru það svo verkin sem tala” 

„Ég hef ekki séð stjórnarsáttmála áður, allavega undanfarna áratugi, þar sem sveitarfélög hafa jafn oft verið nefnd og verkefni tengd þeim og samráð við þau,” segir Karl.

Og hann er bjartsýnn á að loforðin í sáttmálanum verði að veruleika. „Við náttúrulega leyfum okkur að vera bjartsýnir hjá Sambandinu að menn meini eitthvað með þessu en auðvitað eru það svo verkin sem tala,” segir hann. „En við bara treystum því að það sé alvara á bakvið þetta og við höfum fullan hug á því að vinna þessi mál í fullri samvinnu við ríkisstjórn og sérstaklega ráðherra sveitarstjórnarmála.” Karl skrifar einnig grein á vef SÍS í dag þar sem hann fer yfir sáttmálann.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV