Sálin er hætt: Ekki möguleiki á endurkomu

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

Sálin er hætt: Ekki möguleiki á endurkomu

21.10.2018 - 13:04

Höfundar

Hljómsveitin Sálin hans Jóns míns hélt þrenna viðhafnar- og kveðjutónleika í Eldborg um helgina, og voru seinni tónleikarnir í gærkvöldi að öllum líkindum þeir síðustu í sögu sveitarinnar, en ákveðið hefur verið að leggja hana niður eftir þrjátíu ára farsælan feril. Síðasta lagið, Þú fullkomnar mig, var flutt í Eldborg klukkan 01:30 í nótt. Guðmundur Jónsson, gítarleikari sveitarinnar, segir að enginn möguleiki sé á endurkomu sveitarinnar - allavega ekki að svo stöddu.

Fréttastofa fór yfir feril sveitarinnar og ræddi við þá Guðmund og Stefán Hilmarsson, söngvara, skömmu áður en tónleikarnir hófust í Eldborg í gær. Sjá má innslagið í spilaranum hér að ofan.

Fylgir þessu meiri sorg eða gleði?

„Þetta er bara gleði held ég. Það er bara mjög gaman að spila og að taka svona veglegan endasprett með öllum sem hafa fylgt okkur. Og að fylla þrjár Eldborgir, það er bara mjög gaman. En auðvitað er þetta súrsætt, það er alveg rétt,“ sagði Guðmundur baksviðs í Eldborg í gær.

Þið hafið talað um samstarfserfiðleika, en eruð þið einhverjir óvinir?

„Nei. Það held ég að sé óhætt að segja,“ segir Stefán. „En þetta er bara eins og með allt annað samstarf, það kemur að því að maður fer að huga að einhverju öðru. Allt tekur enda og þetta er búið að vera mjög gott „run“ og við erum mjög ánægðir og stoltir af okkar ferli og fínt að enda þetta svona, með viðhafnartónleikum.“

Þið eruð að hætta, en er enginn möguleiki á endurkomu?

„Ekki að svo stöddu, nei,“ segir Guðmundur. „Þetta er ekki gert í einhverju „bríeríi“, þetta er búið að meldast lengi. Þessi hljómsveit var stofnuð til þriggja mánaða en er búin að duga í 30 ár. Og við ákváðum bara að segja þetta gott. Og í staðinn fyrir að „feida“ út ætlum við að taka þetta með glans og fá sem flesta með okkur í endasprettinn.“

Má bjóða ykkur að segja eitthvað að lokum við aðdáendur ykkar?

„Ég vil bara þakka fyrir samfylgdina. Það segir fátt af einu bandi. Það er gríðarlega mikið af fólki þarna úti sem hefur fylgt okkur og það hefur haldið í okkur lífi,“ segir Guðmundur.

„Ég tek heilshugar undir það og þakka þeim fjölmörgu sem hafa fylgt okkur. Við værum ekki starfandi þetta lengi án þess að hafa haft þetta góða bakland. Þannig að ég þakka bara kærlega fyrir,“ segir Stefán.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Frá síðustu tónleikum Sálarinnar hans Jóns míns í gærkvöldi.

Tengdar fréttir

Tónlist

Sálin Hans Jóns Míns

Tónlist

Samstarfið kom að endapunkti