Sala Landsbankans á Borgun réttlætanleg

06.12.2014 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir réttlætanlegt að hafa ekki auglýst söluna á hlut bankans í Borgun. Íslandsbanki hafi ekki viljað kaupa hlutinn á því verði sem fékkst fyrir hlutinn, og því hafi það verið metið sem svo að verðið væri gott.

Steinþór segir bankann hagnast um milljarð á sölunni, sem auki mjög getu hans til að greiða út arð til stærsta eiganda síns, íslenska ríkisins. 

Hluturinn ekki auglýstur til sölu

Landsbankinn seldi nýverið rúmlega 31 prósent  hlut sinn í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun, fyrir tæpa 2,2 milljarða króna. Kaupendurnir voru tveir, Eignarhaldsfélagið Borgun, samlagsfélag margra stofnfjárhafa og félagið BPS, sem er í eigu tólf helstu stjórnenda Borgunar. Hluturinn var ekki auglýstur til sölu og ekkert opið söluferli fór fram. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur gagnrýnt þetta, og sagt óskiljanlegt að Landsbankinn, sem er að langmestu í eigu ríkisins, selji hlutinn án þess að leita fleiri tilboða. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, hefur lagt fram fyrirspurn til fjármálaráðherra og spurt af hverju söluferlið var lokað. Þá hefur efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis boðað Steinþór Pálsson, bankastjóra Landsbankans, á sinn fund á mánudaginn til þess að ræða málið.

Skilur gagnrýnina

Steinþór segist í samtali við fréttastofu RÚV hafa skilning á þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á söluna.

„Já mjög svo. Landsbankinn er mjög stórt fyrirtæki og 98% í eigu ríkisins og eðlilegt að honum sé veitt aðhald. Og gott að það komi gagnrýni.“

 Hefði ekki verið betra að auglýsa söluna og leita fleiri tilboða?

„Það er okkar stefna að vinna þannig. Og almennt séð er rétt að gera það með þeim hætti. Það geta þó verið tilvik sem réttlæta að brugðið sé frá þeirri stefnu. Og við ræddum þetta fyrir söluna, að þetta yrði gagnrýnt. Og við vissum það. En við töldum samt sem áður að aðstæður væru með þeim hætti að það væri réttlætanlegt að fara fram með þessum hætti að þessu sinni.“

 Hvað réttlætir það?

„Það er ýmislegt. Það er hvernig eignarhaldið er þarna og hverjir voru að bjóða. Nú er Landsbankinn í minnihluta með rétt rúmlega 30% í fyrirtækinu. Stór samkeppnisaðili okkar er með meirihluta í þessu félagi. Það er ekki hægt fyrir okkur að nálgast viðkvæmar viðskiptaupplýsingar þess aðila. Þeir eru stærstu viðskiptaaðilinn við Borgun. Kaupendur sem komu fram þarna voru stjórnendur að stórum hluta. Og þeir höfðu þá ákveðna hagsmuni. Þeir ætluðu sér að ná í þetta. Þannig að við vildum ekki fara að opna þetta fyrir aðra aðila, við ekki með neina aðkomu að félaginu, enga stjórnarmenn og enga innsýn inn í félagið og takmarkaða þekkingu, að fara að opna það og segja „við erum að fara að selja, en við ætlum að treysta á upplýsingar frá samkeppnisaðila og stjórnendum sem vilja kaupa félagið“. Þannig að við töldum að þarna væri ákveðinn ómöguleiki. Við fengum upplýsingar frá stjórnendum um áætlanir. Við tókum þær og mátum þær með tilliti til þeirrar áhættu sem er í þessum rekstri. Sagan sýnir að þessi starfsemi sem Borgun er í, sem er að miklu leyti erlendis nú um stundir, hún getur verið mjög áhættusöm. Það er mikill hagnaður af þessu fyrir bankann, milljarður í beinan hagnað sem bætir eiginfjárstöðu bankans verulega, að losna við eign í fjármálafyrirtæki. Það eykur hæfi bankans til að greiða út myndarlegan arð í framtíðinni. Að öllu þessu samanteknu töldum við að hagsmunum bankans og eigenda væri best borgið með því að fara fram með þessum hætti og forða því að ef aðrir aðilar hefðu verið að koma að þessu, að hugsanlega einhverjar skaðabætur hefðu lent á bankanum af því að upplýsingagjöf hefði ekki verið með fullnægjandi hætti.“

Efast um að hærra verð hefði fengist 

Hefði ekki verið hægt að fá óháðan aðila eins og PWC eða Deloitte til að verðmeta hlutinn og annast söluferlið?

„Jú við hefðum getað gert það. En við hefðum samt sem áður átt erfitt með að meta sjálfir hvort það væri til hagsbóta fyrir okkur og hvort við hefðum getað fengið svona gott verð. Við mátum það svo að þetta væri mjög gott verð og því væri rétt að ganga til þessara viðskipta.“

Er ekki líklegt að þið hefðuð getað fengið hærra verð með því að auglýsa söluna?

„Ég efast um það. Ég sé ekki aðra kaupendur koma inn. Það er verið að selja þetta á mjög háu verði. Landsbankinn er með eigið fé upp á 240 milljarða. Ef hann yrði seldur á sama verði, miðað við bókfært eigið fé bankans, þá væri söluverðið á bankanum 450 milljarðar. Þannig að ef þú setur það í það samhengi, að fá svona hátt verð fyrir fjármálafyrirtæki, næstum því tvisvar sinnum bókfært eigið fé, þá er það augljóst að þetta er mjög gott verð.“

Þá segir Steinþór að Landsbankinn hafi boðið Íslandsbanka, sem á stærstan hlut í Borgun, að kaupa hlutinn, en Íslandsbanki hafi ekki viljað kaupa. Steinþór segir að hann hafi þá metið það sem svo, að 2,2 milljarðar væri ásættanlegt verð fyrir hlutinn, og því hafi verið ákveðið að selja hann til hópsins sem keypti.

Í yfirlýsingu sem bankinn sendi frá sér segir að hann hafi verið bundinn af sátt sem hann gerði við Samkeppniseftirlitið – nú segir sú stofnun að hún hefði ekki gert athugasemdir við opið söluferli – var rangt farið með í þessari yfirlýsingu?

„Nei þarna er bara einhver misskilningur á ferðinni. Við vorum bundin af sátt við Samkeppniseftirlitið að vera ekki með neina aðkomu að félaginu. Þetta snýst ekkert um söluferlið og ég held Páll Gunnar Pálsson í Samkeppniseftirlitinu hafi ekki verið að segja það sem birtist í fjölmiðlum. Ég held bara að hann hafi verið að segja að hann taki ekki afstöðu til þessarar spurningar.“

En hann segir að þeir hefðu ekki gert athugasemd við opið söluferli.

„Og ekki heldur hvernig það var gert. Þannig að ég held að hann sé ekki að taka afstöðu í málinu. Enda er það ekki hans að greiða hugsanlegar skaðabætur í framtíðinni. Hann ber enga ábyrgð á starfsemi Landsbankans að því leyti. Það er ekki hans að taka ákvörðun um svona hluti.“

Það hefur verið bent á að föðurbróðir fjármálaráðherra er einn þeirra sem keyptu hlutinn – er það óheppilegt?

„Ég held að þetta sé komið á mjög skírítið plan, að vera að ræða um svona hluti. Við vorum að selja félagi og stjórnendum. Og hvernig þeir hafa sína félagaskrá, það er ekki eitthvað sem við vorum að sýslast með eða sjá ofan í.“

Eigið fé hækkar um milljarða

Stendur til að selja 38% hlut Landsbankans í Valitor?

„Við erum að skoða það núna. Við erum í viðræðum við Arion banka. Þeir hafa komið og boðið í hlutinn og við erum að ræða við þá um verð og fleira. Við teljum ekki neinn hag fyrir bankann að vera inni í þessum félögum sem algjörlega áhrifalaus minnihlutaeigandi. Það er betra fyrir okkur að selja okkur út og það mun ekki hafa nein áhrif á þjónustu okkar við okkar viðskiptavini varðandi greiðslukort. Og þá er betra að við notum peningana í annað. Arion banki nálgaðist okkur og það gæti náð saman. En það er ekki í húsi þannig að við sjáum til.“

Verður ekki leitað fleiri tilboða í því tilfelli?

„Það er flókið mál. Mun flóknara mál en varðandi Borgun sem tengist réttindum sem eru þarna inni, gríðarlega miklum verðmætum sem gætu skilað sér síðar. Og það er erfitt að verðleggja það núna. Þess vegna sjáum við hag í því að eiga þessi viðskipti við Arion banka sem getur þá tryggt okkar réttindi í framtíðinni þar. Þetta snýr að valréttum sem eru á milli Visa í Bandaríkjunum og Visa í Evrópu þar sem Visa í Bandaríkjunum er skráð félag sem heldur á Visa merkinu, og Visa í Evrópu er nokkurs konar samlagsfélag sem bankar í Evrópu sem hafa verið að gefa út kortin eiga aðild að. Og ef þessi viðskipti verða þarna á milli gætu komið verulegar greiðslur í framtíðinni inn í löndin og inn til bankanna. Og þetta þurfum við að passa upp á að við missum ekki af.“

Þannig að það verður ekki leitað fleiri tilboða í þennan hlut í Valitor?

„Ef við náum saman, þá er það rétt. Ef við náum ekki saman verðum við að skoða okkar stöðu og þá kemur í ljós hvað við gerum.“

Þá er möguleiki á að þið leitið annarra tilboða?

„Það gæti verið já.“

Sala bankans á þessum hlutum, mun hún hækka arðgreiðslur bankans til langstærtsta eiganda síns – íslenska ríkisins?

„Já, því að eigið fé bankans hækkar um fleiri, fleiri milljarða. Og eigið fé er orðið mjög hátt. Þannig að ef óvissan í kringum bankann fer að minnka, þá eykur þetta verulega arðgreiðslugetu bankans. Og það er okkar stefna, að greiða út myndarlegan arð. Og það höfum við sýnt að undanförnu að við erum að gera.“

Nú hefur þú verið boðaður á fund efnahags- og viðskiptanefndar á mánudag til að ræða söluna á hlutnum í Borgun. Telur þú eðlilegt að löggjafinn sé að skipta sér af því sem banki í eigu ríkisins er að gera?

„Þetta er stór spurning og ég held að lögfræðingar séu ekki alveg klárir á þessu. Alþingi setti sérstakan hóp á laggirnar rétt fyrir hrun, hvernig ætti að sinna þessu eftirlitshlutverki þingsins. Þeir skrifuðu stóra skýrlslu. Og það eru engar hreinar línur þar. Þarna þarf löggjafinn að fara varlega. Við erum Landsbankinn hf., þetta er ekki ríkisstofnun og ég er ekki embættismaður. Um okkur gilda lög. Við eigum að vinna í samræmi við góða stjórnarhætti sem og við gerum. Og það kemur mjög skýrt fram í eigendastefnu ríkisins að aðkoma hluthafa, ríkið í þessu tilfelli, að það á að fara með það með svipuðum hætti og í öðrum hlutafélögum.“

Þannig að þú setur spurningamerki við að vera kallaður fyrir nefndina?

„Ég held að það sé rétt að mæta, og sýna þannig ákveðna kurteisi. Það koma einhverjar spurningar og sjálfsagt að svara þeim. En valdsvið nefndarinnar yfir starfsemi bankans er náttúrulega mjög takmarkað,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.

[email protected]

 

 

 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi