Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Sala eykst á metan þótt verð hækki

23.07.2012 - 16:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Sala á metangasi á bíla eykst hröðum skrefum þótt verðið hafi hækkað, nú síðast um helgina. Sorpa er að leggja í nýjar fjárfestingar til að framleiða meira gas.

Rúmmetrinn af metangasinu kostar nú 149 krónur en verðið hækkaði um átján krónur á föstudaginn á áfyllingarstöðvum N1 við Bíldshöfða í Reykjavík og í Hafnarfirði.

Magnús Ásgeirsson hjá N1 segir að skýringin sé hækkun hjá Sorpu sem fær gasið úr sorphaugunum í Álfsnesi.

Bjarni Hjarðar, yfirverkfræðingur Sorpu, segir að nauðsynlegt hafi verið að fá inn meiri tekjur til að fjárfesta í nýjum hreinsibúnaði fyrir gasið. Eftirspurn hafi aukist og með breytingunum verði hægt að framleiða meira af þessu vistvæna eldsneyti.

Metanorka og Olís hafa líka samið um kaup á gasi af Sorpu og því er útlit fyrir meiri samkeppni á þessu sviði.

Magnús hjá N1 segir að miðað við söluna það sem er þessu ári stefni hún í að vera nærri tvisvar sinnum meiri en í fyrra og fjórföld á við það sem hún var árið 2010.

Íslenska gámafélagið og Vélamiðstöðin reka 45 metanbíla ýmist til eigin nota eða til útleigu - og þar segja stjórnendur að þessi hækkun nú hafi auðvitað áhrif á reksturinn. Enn er þó miklu ódýrara að kaupa metan á bílinn en bensín - munurinn er um hundrað krónur á sambærilegu magni.