Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Sala á tölvum jókst um 29%

15.03.2013 - 10:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Sala á tölvum í febrúar jókst um tæp 29% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Farsímasala jókst einnig um tæp 25% prósent samkvæmt smásöluvísitölu Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Aukning á sölu minni raftækja nam rúmum 14% og sala á stærri raftækjum jókst um sjö og hálft prósent. Velta í dagvöruverslun dróst saman um 1,2% milli ára. Á sama tíma hefur verð á dagvöru hækkað um 5,8%.

Greiðslukortavelta heimilanna var 10,2% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra. Athygli vekur að kortavelta útlendinga hér á landi jókst um helming frá því í febrúar fyrir ári. Þannig greiddu útlendingar um 4,9 milljarða króna í febrúar hér á landi með greiðslukortum sínum, samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands. Þessi upphæð er 9% af því sem heimili landsins greiddu með greiðslukortum sínum hér á landi í síðasta mánuði.