Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sala á bensínbílum hríðféll í Noregi

03.01.2020 - 12:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Sala á bensínbílum í Noregi dróst meira saman í fyrra en sala á díselbílum. Á sama tíma jókst sala á rafmagnsbílum um 30 rúmlega prósent.

Bílasala í Noregi dróst saman um 3,8 prósent milli áranna 2018 og 2019, samkvæmt tölum frá norsku samgöngustofunni, OFV.

Sala á bensínbílum hríðféll á milli ára, eða um 31,4 prósent. Sala á díselbílum dróst saman um 13,1 prósent og er þetta í fyrsta skipti í langan tíma sem sala á bensínbílum dregst meira saman en sala á díselbílum.

Skýringin er sögð sú að bensínbílar séu almennt smærri og neytendur kjósi þess vegna að kaupa sambærilega rafmagnsbíla. Díselbílarnir séu almennt stærri og aflmeiri.

Sala á endurhlaðanlegum hybrid-bílum dróst hins vegar mikið saman. Í skýringum OFV segir að líklega séu neytendur að bíða eftir stærri og fjölskylduvænni rafmagnsbílum sem væntanlegir eru á markað á næstu tveimur árum. Nýir staðlar og skattabreytingar hafi einnig orsakað minna framboð.