Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Saksóknari í Úkraínu rannsakar Biden-feðga

04.10.2019 - 09:36
epa07885443 Former US Vice President Joe Biden delivers a speech during his first campaign event, at the Teamsters Local 249 Banquet Hall in Pittsburgh, Pennsylvania, USA, 29 April 2019. Biden is seeking the Democratic nomination for the 2020 US presidential election.  EPA-EFE/David Maxwell
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ríkissaksóknari Úkraínu hefur fjölda mála til skoðunar tengd orkufyrirtæki sem Hunter Biden tengdist þar í landi. Hunter er sonur Joe Biden, fyrrverandi varaforseta, og einn þeirra sem gæti orðið keppinautur Donalds Trump í forsetakosningum í Bandaríkjunum á næsta ári. Trump hefur kallað eftir því að umsvif þeirra feðga verði rannsökuð.

Saksóknari sagði við fréttamenn í morgun að rannsókn mála sem tengjast Burisma-gasfyrirtækinu væri hafin að nýju. Hunter sat í stjórn fyrirtækisins frá 2014 og þar til í ár. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings rannsakar nú hvort Trump hafi misnotað embætti sitt og brotið lög þegar hann þrýsti á Úkraínuforseta í einkasamtali að beita sér fyrir rannsókn á umsvifum feðganna. 

Trump hvatti í gær kínversk yfirvöld til að rannsaka mál þeirra einnig, sakaði þá um mútuþægni og sagði þá gjörspillta. Trump fullyrti að Hunter hefði fengið hálfan annan milljarð bandaríkjadala frá Kínverjum. Það væri líkast til skýringin á þeim óeðlilega góðu viðskiptakjörum sem Kínverjar hefðu notið í Bandaríkjunum til skamms tíma, sagði forsetinn, á kostnað bandarískra fyrirtækja og almennings.