
Sakbitnir sænskir flugfarþegar
Í hópnum eru bæði almenningur, frægðarmenni og aðrir sem hafa í gegnum tíðina flogið mikið vegna vinnu sinnar. Þar setur fólk inn færslur undir myllumerkinu #jagstannarpåmarken eða ég held mig á jörðinni.
„Flugfarþegar eru komnir með samviskubit yfir því hvað þeir losa mikið þegar þeir eru að fljúga á milli landa þannig að þetta er klárlega eitthvað sem fleiri og fleiri eru farnir að taka með í reikninginn,“ sagði Kristján Sigurjónsson, ritstjóri ferðavefsins Turisti.is í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Ég sá frétt hér í Svíþjóð í gær um að sænsk ferðaskrifstofa er farin að gera út á sólarlandaferðir þar sem ferðast er í lest hér frá Svíþjóð.“
Sænska nýyrðið „flygskam“ eða flugskömm er farið að heyrast æ oftar í umræðunni. „Þetta er farið að heyrast bara í útvarpinu að fólk er farið að skammast sín fyrir að fljúga og það voru umræður um þetta í sænska ríkisútvarpinu í vikunni. Það eru margir Svíar illa haldnir orðið af flygskam,“ segir Kristján.
Greint er frá því á vefsíðunni Reset, sem fjallar um umhverfismál, að Svíinn Björn Ferry, fyrrum ólympíumeistari í skíðaskotfimi, hafi undanfarin tvö ár aðeins ferðast með lest í störfum sínum fyrir sænska ríkisútvarpið. Oftast ferðast hann með næturlestum og segir lítið mál að nota þann ferðamáta til að mæta á fundi á meginlandi Evrópu. Í frétt Reset segir jafn framt að á sumum leiðum sænska lestarfyrirtækisins SJ hafi bókanir aukist um 100 prósent á undanförnum misserum.
Greta Thunberg, sænska stúlkan sem vakið hefur heimsathygli fyrir baráttu sína í þágu umhverfisins, notast einnig við myllumerkið #jagstannarpåmarken
I’m on my way home now from Brussels to Stockholm. It’s a long way when you travel by electric car... #istayontheground #climate #jagstannarpåmarken #klimat pic.twitter.com/sdaJskrzrZ
— Greta Thunberg (@GretaThunberg) October 7, 2018