Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sakar sjúkraþjálfara um að beita sjúklingum fyrir sig

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands sakar sjúkraþjálfara um að beita sjúklingum fyrir sig í deilu við yfirvöld. Sjúklingar þurfa nú að greiða allt að átta þúsund krónur fyrir sjúkraþjálfun og sækja sjálfir endurgreiðslu til Sjúkratrygginga. Forstjóri Sjúkratrygginga hefur sent Samkeppniseftirlitinu bréf og tilkynnt grun um ólögmætt verðsamráð sjúkraþjálfara.

Sjúkraþjálfarar tilkynntu í morgun að þeir hefðu sagt sig frá samningi við Sjúkratryggingar og væru hættir að hafa milligöngu um niðurgreiðslu ríkisins á sjúkraþjálfun. Því þurfa þeir sem fara í sjúkraþjálfun að greiða á bilinu sex til átta þúsund krónur og fara svo með reikninginn í Sjúkratryggingar og óska eftir endurgreiðslu. Þá hefur gjald fyrir sjúkraþjálfun í mörgum tilvikum hækkað umfram það sem ríkið niðurgreiðir.

Kom SÍ í opna skjöldu

„Þetta útspil Félags sjúkraþjálfara kom okkur algerlega í opna skjöldu. Það er samningur í gildi milli aðila og samkvæmt honum á að hafa rafræn samskipti um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Menn hafa hér valið að beita sjúklingunum dálítið fyrir sig vegna þess að auðvitað skapar þetta sjúklingum bæði áhyggjur og vandamál að þurfa að koma upp á Vínlandsleið með reikninga til þess að leita eftir endurgreiðslu,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

„Sjúkraþjálfarar velja að nota ekki mjög þægilega leið sem við höfum okkur í milli til þess að ganga frá greiðsluþátttöku og er mjög þægileg fyrir sjúklinga. Þeir velja að fara aðra leið og það er alfarið á þeirra ábyrgð og við vísum því þangað,“ segir María.

Ágreiningur um gildistíma samnings

Hún er ekki sammála þeirri túlkun Félags sjúkraþjálfara um að samningur við Sjúkratryggingar hafi runnið úr gildi í janúar. „Við höfum ekki fengið nein mótmæli við okkar framlengingu á samningum. Það hafa ekki borist nein formleg andmæli og menn hafa innheimt mjög stórar fjárhæðir fyrir sína þjónustu samkvæmt þessum samningi. Það er erfitt að túlka það öðru vísi heldur en að báðir aðilar telji samninginn vera í gildi,“ segir María.

Hefur sent Samkeppniseftirlitinu tilkynningu

María hefur sakað sjúkraþjálfara um ólögmætt verðsamráð. 

„Okkur hafa borist upplýsingar um að félagið hafi sent verðskrá á sína félagsmenn til að nota frá og með deginum í dag. Ef það er rétt þá vakna spurningar um hvort þetta sé hugsanlega brot á samkeppnislögum og þar með verðum við að vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á þessu,“ segir María.

Hafið þið þegar gert það?

„Við erum búin að skrifa þetta bréf, já,“ segir María.

Hafið þið einhver gögn til þess að láta fylgja með máli ykkar til stuðnings?

„Já, við höfum það,“ segir María. 

Hún vill ekki láta fréttastofu RÚV hafa afrit af gögnunum. „Á þessu stigi erum við að leita til Samkeppniseftirlitsins og það er rétt að halda því í þeim farvegi í bili,“ segir María.

ÖBÍ óttast að fólk hætti að sækja í sjúkraþjálfun

Formaður Öryrkjabandalagsins sagði í fréttum RÚV fyrr í dag að þetta óhagræði fyrir sjúklinga og hækkun á gjaldskrá sjúkraþjálfara yrði líklega til þess að margir öryrkjar hætti að sækja sér sjúkraþjálfun. Hefur María áhyggjur af því?

„Að sjálfsögðu er það áhyggjuefni þegar veitendur þjónustu sem er niðurgreidd að mestu af ríkinu, ákveða einhliða að sækja sér meiri tekjur beint til skattgreiðenda og sjúklinga,“ segir María.