Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sakar meirihlutann í borginni um hræsni

15.09.2015 - 19:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn greiddu atkvæði gegn síðustu tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur sem borgarfulltrúa um að borgin hætti viðskiptum sínum við Ísrael. Kjartan Magnússon sakar meirihlutann um hræsni og tvískinnung og bendir á málefni Tíbets máli sínu til stuðnings.

Meirihlutinn í borgarstjórn samþykkti tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur um að fela innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu borgarinnar á ísraelskum vörum meðan á hernámi Ísraelsríkis á landsvæði Palestínu stendur. Kaupmannahöfn var í sömu hugleiðingum í sumar.

Þetta var síðasta tillaga Bjarkar sem borgarfulltrúa en hún mun nú halda til Palestínu og vinna þar sem sjálfboðaliði fram til áramóta. Í tilkynningu frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins kemur fram að þeir hafi lagst gegn þessari tillögu - innkaupabann á vörur frá Ísrael muni ekki verða til þess að bæta stöðu íbúa Palestínu.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi flokksins, sendi einnig frá sér tilkynningu til fjölmiðla. Þar sakar hann meirihlutann um hræsni og tvískinnung.

Til að mynda hafi Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, ekki látið víðtæk mannréttindabrot í Kína stöðva sig í því að þiggja boðsferðir til landsins á vegum þarlendra stjórnvalda. „Það lýsir hræsni og tvískinnungi að samþykkja viðskiptasniðgöngu gagnvart einu ríki en telja á sama tíma í lagi að ferðast til annarra ríkja sem gistivinur stjórnvalda, þar sem mannréttindabrot eru framin í miklu stærri stíl.“

Kjartan nefnir í orðsendingu sinni sérstaklega málefni Tíbets sem Kínverja hafi hernumið frá árinu 1950.

Fram kemur í tilkynningu frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins að hefð hafi verið fyrir því að fráfarandi borgarfulltrúi flytji kveðjutillögu á sínum síðasta fundi. „Hefur tillagan þá verið borin undir alla borgarfulltrúa og leitað samkomulags. Því var ekki að heilsa í þetta sinn og er það miður að þannig hafi verið staðið að tillögunni.“