Sakar kaupmenn um leiðinlegan málflutning

01.03.2015 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður Bændasamtakanna sakar kaupmenn um leiðinlegan málflutning þegar þeir gagnrýna innflutningshömlur á kjöti og öðrum búvörum. Álagning kaupmanna á innfluttar búvörur sé mun meiri en á innlenda framleiðslu.

Það er eitthvað gruggugt við það að á meðan svínabændur fá minna fyrir framleiðsluna hækki verðið á markaði. Þetta segir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna. Búnaðarþing hefst í dag og í ávarpi sínu gagnrýnir Sindri kaupmenn fyrir að berjast gegn innflutningshömlum á búvörur. 

Félag atvinnurekenda hefur farið mikinn í að berjast fyrir auknu frelsi í innflutningi á búvörum og ég vil bara minna á að tollvernd er stórt kjaramál fyrir íslenska bændur. Þetta kallar fram svona leiðinlega umræðu sem eðlilega ruglar almenning í ríminu," segir Sindri. 

En er ekki fyrirkomulagið þannig eins og það er í dag að það bitnar á neytendum og matarverðið verður of hátt?

Tollvernd kostar alltaf eitthvað en það er líka mikilvægt fyrir hverja þjóð að hafa matvælaframleiðslu í sínu eigin landi. Það er nú tilfellið að það er ekki nema 10 prósent af mati sem er framleiddur í heiminum sem er seldur milli landa. 90 prósent er framleitt fyrir heimamarkað og það er hverri þjóð mikilvægt að hafa sína matvælaframleiðslu. Og það hefur ekki verið sýnt fram á það að maturinn sem er fluttur inn sé eitthvað ódýrari. Verð hefur nú þvert á móti verið að lækka, eins og til svínabænda, á meðan það hefur hækkað á markaði. Þannig að það er nú eitthvað gruggugt í því."

Þá bendir Sindri á að á meðan innflutningur á nautakjöti hafi aukist mikið hafi kaupmenn hækkað verðið. 

Það hefur verið sýnt í skýrslu sem Samkeppniseftirlitið lét gera um dagvörumarkaðinn að álagning þeirra á innfluttar búvörur er mun mun meiri en á þær búvörur sem eru framleiddar hér heima. Það ósanngjarnt að þeir skuli bera fyrir sig neytendur í þeim efnum, sérstaklega í ljósi þess að innflutningur á landbúnaðarvörum var með mesta móti í fyrra en það hefur ekki sést í verði á afurðunum."

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi