Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sakar Benedikt um lýðskrum og þöggunartilburði

13.12.2017 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sakar hæstaréttardómarann Benedikt Bogason um að reyna að þagga niður í gagnrýni hans á störf réttarins með stefnu á hendur honum fyrir meiðyrði. Þá segir hann að það sé lýðskrum af Benedikt, sem verðskuldi aðfinnslur héraðsdóms, að lofa því að fái hann miskabætur muni þær renna til góðgerðarmála.

Þetta kemur fram í greinargerð Jóns Steinars sem Gestur Jónsson, lögmaður hans, lagði fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Benedikt stefndi Jóni Steinari 6. nóvember. Tilefnið var bókin „Með lognið í fangið – um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“, þar sem Jón Steinar sakar Hæstarétt um dómsmorð á Baldri Guðlaugssyni, sem var sakfelldur fyrir innherjasvik. Benedikt heldur því fram að með þessu hafi Jón Steinar sakað hann um refsiverða háttsemi, enda refsivert af dómurum að dæma saklausa menn viljandi til refsingar.

Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar, undirbýr ræðu sína í réttarhöldum vegna allsherjarmarkaðsmisnotkunar í Kaupþingi.
Gestur Jónson. Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV

Vitnað í dóm í öðru máli Jóns Steinars

Í greinargerð sinni grípur Gestur til varna í málinu fyrir Jón Steinar, skjólstæðing sinn. Í fyrsta lagi heldur hann því fram að Benedikt geti í raun ekki átt aðild að máli sem þessu, enda hafi gagnrýnin ekki beinst að Benedikt persónulega heldur að Hæstarétti í heild sinni, jafnvel þótt Benedikt hafi verið einn fjögurra dómara sem kváðu upp sektardóminn yfir Baldri.

Jón Steinar krefst hins vegar ekki frávísunar málsins frá dómi á þessari forsendu heldur sýknu, enda segir í greinargerðinni að hann telji „af persónulegum ástæðum æskilegt að um sakarefni málsins verði fjallað fyrir dóminum“.

Í greinargerðinni segir að rúmt tjáningarfrelsi gildi um störf Hæstaréttar og einstaka hæstaréttardómara – það sýni dómur í máli Jóns Steinars sjálfs gegn Þorvaldi Gylfasyni, þar sem sá síðarnefndi var sýknaður af meiðyrðastefnu Jóns Steinars. Þá gildi sérstaklega rúmt tjáningarfrelsi um sakamál og Hæstiréttur sjálfur hafi talið að tjáningarfrelsi sé jafnvel enn rýmra í málefnum tengdum bankahruninu. Það sýni Hæstaréttardómur þar sem starfsmenn DV voru sýknaðir af því að hafa brotið gegn friðhelgi Eiðs Smára Guðjohnsen með umfjöllun um fjármál hans.

Tyrkneskur prófessor mátti efast um gáfnafar dómara

Enn fremur er vitnað til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli tyrknesks lagaprófessors sem hafði farið ófögrum orðum um þarlenda dómara í grein sem hann skrifaði, gagnrýnt dómsniðurstöðu þeirra, sagt þá hafa látið undan þrýstingi, ekki þekkt lögin og efast um faglega þekkingu þeirra og gáfnafar. Mannréttindadómstóllinn taldi að um gildisdóm væri að ræða og þótt tjáning prófessorsins væri á köflum litrík eða gróf væri hún ekki tilefnislaus og í ljósi þess að rúmt tjáningarfrelsi gildi um starfsemi dómstóla vegna þjóðfélagslegs mikilvægis þeirra fælust ekki meiðyrði í greinaskrifunum.

Í greinargerð Jóns Steinar segir að skrifa hans hafi verið miklu vægari og ópersónulegri en í máli tyrkneska prófessorsins. Þess vegna hljóti ummæli Jóns Steinars að njóta verndar Mannréttindasáttmála Evrópu.

Sævar Ciesielski í Hæstarétti. Skjáskot úr sjónvarpsupptöku.
 Mynd:  - RÚV

Orðið „dómsmorð“ oft notað áður

Gestur fjallar í greinargerðinni í nokkuð löngu máli um hugtakið dómsmorð – því hafi margir beitt fyrir sig, meðal annars nokkrir sakborningar í hrunmálum og þekktasta dæmið sé líklega Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Þar hafi Davíð Oddsson forsætisráðherra sagt að mörg dómsmorð hefðu verið framin. Notkun orðsins sé því í samræmi við almenna lögfræðilega orðnotkun og almenna málvenju. „Ef dómur í máli þessu félli stefnanda [Benedikt] í vil, hefði það ófyrirséðar afleiðingar fyrir tjáningarfrelsi lögfræðinga, fræðimanna, fjölmiðlamanna, sakborninga, aðstandendur þeirra og allan almenning,“ segir í greinargerðinni.

Þá segir í greinargerðinni að ummælin séu ekki staðhæfing um staðreynd, heldur gildisdómur. „Óréttlátt sé að taka einstök ummæli um „dómsmorð“ út úr umfjölluninni og krefjast þess að það verði sannað, þegar umfjöllunin í heild sinni sé rökstudd afstaða þess sem í hlut á og  teljist því gildisdómur.“ Hingað til hafi ummæli um dómsmorð ekki verið túlkuð þannig að verið sé að saka einstaka dómara um refsiverða háttsemi, eins og Benedikt miði við í stefnu sinni. Gagnrýni Jóns Steinars hafi ekki beinst að Benedikt, heldur stofnuninni Hæstarétti Íslands og „menguðu hugarástandi innan dómstólsins“.

Komist héraðsdómur hins vegar að því að ummælin um dómsmorð teljist vera staðhæfing um staðreynd, frekar en gildisdómur, segir í greinargerðinni að þá sé á því byggt að umfjöllun Jóns Steinars um það hvernig dómarar komust að rangri niðurstöðu í máli Baldurs sé rétt. Því bæri líka að sýkna hann í því tilviki.

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraðsdómi fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi.
 Mynd: RÚV

Önnur sambærileg ummæli Jóns Steinars stæðu óhögguð

Í greinargerðinni er einnig fjallað um áhrifin sem dómur Benedikt í vil gæti haft á almenna umræðu um dómstóla á Íslandi og hversu hættulegt fordæmi það væri. „Ef allir fjórir dómararnir sem stóðu að meirihlutaatkvæðinu ættu miskabótarétt á hendur stefnda þarf vart að fjölyrða um kælingaráhrif á frjálsa tjáningu um málefni Hæstaréttar. Hætt væri við því að þeir örfáu menn sem hygðust dirfast  að gagnrýna dómstólinn hættu við það,“ segir í greinargerðinni.

Þá er því haldið fram að Benedikt hafi í raun enga lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um ummælin í bókinni, enda mundu sambærileg ummæli Jóns Steinars í annarri bók, „Í krafti sannfæringar“ frá 2014, standa óhögguð. Þar hafi Jón Steinar einnig notað orðið „dómsmorð“ um dóminn yfir Baldri.

Hæstiréttur Íslands
 Mynd: RÚV

Hærri en miskabætur til þolenda alvarlegra nauðgana

Benedikt gerir tveggja milljóna miskabótakröfu í málinu. Í greinargerð Jóns Steinars segir að sú krafa sé óhóflega há og ekki í nokkru samræmi við áratuga dómaframkvæmd Hæstaréttar í ærumeiðingarmálum. Sem hæstaréttardómara sé Benedikt það ljóst, eða hljóti að vera það. „Krafan er meira að segja hærri en dæmdar miskabætur til þolenda alvarlegra nauðgana,“ segir í greinargerðinni.

„Telji stefnandi miska sinn þola samjöfnuð við miska þolenda nauðgunar í málum eins og hér hefur verið vísað til, verður að gera þá kröfu til hans að hann útlisti nánar en gert er í stefnu í hverju miski hans felst nákvæmlega,“ segir einnig.

Skiptir engu máli í hvað bæturnar fara

Þá er gerð athugasemd við það að Benedikt segi í stefnu sinni að hann muni láta miskabæturnar renna til góðgerðarmála ef hann fái þær dæmdar. Í greinargerð Jóns Steinars segir að dómstólar geti ekki ákvarðað bótafjárhæð með hliðsjón af því hvað sá sem krefst bótanna hyggst gera við þær. „Bótunum er eingöngu ætlað það hlutverk að rétta hlut bótakrefjandans sjálfs,“ segir í greinargerðinni.

Dómstóla varði ekkert um það hvernig Benedikt hyggist verja fjármununum og hafi heldur engin „réttarfarsleg tæki“ til að fylgjast með því í hvað þeir fara. „Málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti ber að skoðast sem lýðskrum, sem verðskuldar aðfinnslur virðulegs réttar,“ segir í greinargerð Jóns Steinars.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þá er fundið að því að Benedikt reki fyrri mál Jóns Steinars í kaflanum um bótakröfuna í stefnunni. Þar sé meðal annars tíundað að Jón Steinar hafi verið dæmdur til greiðslu miskabóta með dómi Hæstaréttar fyrir um 16 árum og auk þess verið áminntur af úrskurðarnefnd lögmanna. „Virðist þetta sett fram til að kasta rýrð á stefnda sem persónu,“ segir í greinargerðinni. Umfjöllunin sé þýðingarlaus enda fái ekki staðist að Benedikt fái hærri bætur vegna fyrri atvika sem varði hann ekkert. „Er með nokkrum ólíkindum að þessi efnisgrein rati inn í stefnu í máli hæstaréttardómara,“ segir í greinargerðinni.

Segir Benedikt bera þungan hug til sín

Að síðustu er það nefnt í greinargerðinni að Benedikt hafi stefnt málinu fyrir dóm einungis fjórum dögum eftir að bók Jóns Steinars kom út og ummælin birtust, án þess að tilkynna Jóni Steinari um kröfurnar og gefa honum kost á að ljúka málinu með samkomulagi.

„Þetta sýnir, öðru fremur, þungan hug stefnanda til stefnda og að tilgangur málsóknarinnar er að þagga niður rökstudda gagnrýni á starf Hæstaréttar. Þessi atburðarás er alvarlegri fyrir þá sök að stefnandi er dómari við Hæstarétt Íslands,“ segir í greinargerð Jóns Steinars.