Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sakaður um spillingu í ebólufaraldrinum

15.09.2019 - 09:28
Mynd með færslu
Heilbrigðisráðherra Kongó, Oly Ilunga Kalenga, hrindir úr vör bólusetningarherferð sem talin er hafa bjargað þúsundum mannslífa í yfirstandandi ebólufaraldri í landinu Mynd:
Fyrrverandi heilbrigðisráðherra Austur-Kongó hefur verið handtekinn og sætir nú rannsókn vegna gruns um spillingu. Hann er talin hafa misnotað aðstöðu sína varðandi fjármagn sem barst til landsins vegna ebólufaraldursins sem þar geysar.

Ráðherrann, Oly Ilunga, bar ábyrgð á því að bregðast við faraldrinum en var sviptur embætti í júlí og fór þá út úr ríkisstjórn. Lögfræðingar Ilunga neita því að ráðherrann fyrrverandi hafi gert nokkuð brotlegt, en hann var handtekinn þar sem hann er talinn hafa ætlað að flýja undan réttvísinni úr landi.

Síðasta árið hafa borist um 150 milljónir dala til Austur-Kongó, jafnvirði rúmlega átján milljarða króna, en Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að þörfin sé enn meiri. Tvö þúsund manns hafa látist úr faraldrinum nú, sem er sá mannskæðasti síðan meira en ellefu þúsund manns létust í ebólufaraldrinum árin 2013-2016.