Sakaðir um að misnota sýrlenskar konur

27.02.2018 - 09:18
epa06421121 Internally displaced women fill their jerrycans with water at the Kalbeed makeshift camp, near Bab al-Hawa crossing by the Syrian-Turkish border, 06 January 2018. Hundreds of families fled the fighting between government and opposition forces
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hjálparstarfsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra hjálparstofnana hafa misnotað sýrlenskar konur kynferðislega í skiptum fyrir matvæli og aðra aðstoð. Frá þessu er greint á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.

Upp komst um ofbeldisverkin fyrir þremur árum. Sýrlenskar konur sem leitað höfðu skjóls í flóttamannabúðum í Jórdaníu greindu starfsmönnum frá ástandinu. Þrátt fyrir viðvaranir hefur ofbeldisverkunum verið fram haldið í suðurhluta Sýrlands.

Hjálparstarfsmenn hafa greint fréttamönnum BBC frá því að kynferðisofbeldið sé svo víðtækt að sumar konur veigri sér við að fara í birgðastöðvar til að sækja sér matvæli af ótta við að verða stimplaðar fyrir að selja sig í staðinn fyrir aðstoðina. Einn viðmælenda BBC fullyrðir að forsvarsmenn hjálparstofnana viti af kynferðisofbeldinu, en láti sem ekkert sé.

Í skýrslu sem Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, tók saman í fyrra kom fram að kynferðisofbeldi gegn konum í skiptum fyrir matvæli viðgangist í sumum hlutum Sýrlands. Konur njóti ekki verndar karlmanna, svo sem ekkjur, fráskildar konur og konur sem hafi hrakist að heiman vegna stríðsástandsins séu í mestri hættu.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi