Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Saka nær 600 embættis- og stjórnmálamenn um spillingu

09.01.2020 - 01:44
epa08108353 Former president of Bolivia Evo Morales participates in a solidarity event for the Three Kings' Day with the Bolivian community in the neighborhood of Isla Maciel, in Buenos Aires, Argentina, 06 January 2020.  EPA-EFE/Juan Ignacio Roncoroni
Evo Morales tekur þátt í þrettándagleði landa sinna í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, þar sem hann er í útlegð Mynd: EPA-EFE - EFE
Bráðabirgðaríkisstjórn Bólivíu tilkynnti á miðvikudag að umfangsmikil rannsókn á spillingu í stjórnkerfinu standi fyrir dyrum, þar sem nær 600 stjórnmála- og embættismenn fyrri stjórnar eru í sigtinu. Þar á meðal er Evo Morales, fyrrverandi forseti, sem hrökklaðist frá völdum í haust og nýtur nú pólitísks hælis í Argentínu.

„Ákveðið hefur verið að hefja rannsókn á 592 fyrrverandi ráðamönnum," sagði Mathias Kutsch, yfirmaður spillingarrannsókna í dómsmálaráðuneytinu, á fréttamannafundi í gær. Þar staðfesti hann að Morales væri á meðal grunaðra, en líka varaforsetinn fyrrverandi, Alvaro Garcia, ráðherrar og aðstoðarráðherrar í stjórn Moralesar, ráðuneytisstjórar, þingmenn og fjöldi embættismanna í stjórnsýslunni.

Biðja Interpol um aðstoð við að fanga Morales

Kutsch sagði að rannsókninni væri ætlað að fletta ofan af „þeim sem hefðu framið spillingarglæpi, þeim sem drógu sér opinbert fé, og sérstaklega þeim sem fluttu það fé úr landi." Handtökuskipun hefur verið fefin út á hendur Morales, ef hann skyldi snúa aftur til Bólivíu, og bráðabirgðastjórnin hefur farið þess á leit við Interpol að handtaka hann til að koma í veg fyrir þátttöku hans í mannréttindaráðstefnu í Chile, sem honum hefur verið boðið að ávarpa.

Sjálfur segist Morales vera fórnarlamb valdaráns að undirlagi Bandaríkjastjórnar, en hann var knúinn til afsagnar og landflótta eftir vafasaman sigur hans í forsetakosningum í fyrra. Hann flúði upphaflega til Mexíkó, en fékk síðan pólitískt hæli í Argentínu þar sem hann heldur til nú.

Rannsókn þegar hafin á nokkrum fyrirtækjum og stofnunum

Bráðabirgðastjórnin, undir forystu Jeanine Anez, hefur ítrekað fullyrt að spilling hafi náð að teygja anga sína um allt bólivíska stjórnkerfið í 14 ára valdatíð Moralesar og heitið því að uppræta hana. Rannsókn er þegar hafin á starfsháttum og fjármálum nokkurra stofnana og ríkisfyrirtækja. Þar má nefna Póst og Síma, ríkisolíufyrirtækið YPFB, lífeyrissjóði hins opinbera, heilbrigðisráðuneytið og ráðuneyti námavinnslu. Kutsch sagði niðurstaðna fyrstu rannsókna að vænta í apríl.

Kosið aftur í maí

Bráðabirgðaríkisstjórn landsins ógilti formlega kosningaúrslitin frá því í október á síðasta ári og tilkynnti að nýjar forsetakosningar verði haldnar 3. maí. Morales hefur sagst hafa fullan hug á að taka þátt í þeim, en bráðabirgðastjórnin segir hann ekki kjörgengan.