Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sagði í fyrsta sinn frá rúmlega 30 árum síðar

Mynd: Björg Magnúsdóttir / Forlagið

Sagði í fyrsta sinn frá rúmlega 30 árum síðar

14.11.2017 - 14:35

Höfundar

„Ég hef beðið Jógu að fá að skrifa þetta í langan tíma. Hún hefur ekki verið til umræðu um það fyrr en síðasta haust,“ segir Jón Gnarr um nýjustu bók sína, Þúsund kossa, sem fjallar um líf Jógu eiginkonu hans. Þau hjónin dembdu sér í skrifin þegar þau dvöldu í Texas fyrr á árinu en bókin hverfist í kringum slys og í kjölfarið mikið áfall sem Jóga varð fyrir 19 ára gömul og breytti lífi hennar til frambúðar.

Þegar hjónin ákváðu loks að segja söguna sagði Jóga í raun frá tímabilinu í fyrsta skipti frá A til Ö. „Það tók sex mánuði að fara í gegnum þetta með hléum þó ég hafi aldrei fengið frið frá sögunni. Ég hafði fleytt kerlingar á sögunni síðan þetta gerðist,“ útskýrir Jóga. 

Jón segir það hafa verið mjög sérstakt að fara í gegnum þetta ferli saman. „Þau áföll sem hún gekk í gegnum, bæði þetta slys og síðan eftirmálar þess, málaferli og sjúkrahúsvist og endurhæfing. Ég fékk tækifæri á því, gegnum söguna, að vera með henni. Fylgja henni í gegnum þetta á einhvern hátt, þó ég hafi ekki verið með henni á þeim tíma náðum við að fara í gegnum þetta saman og ég að fylgja henni í gegnum þetta. Það var einna merkilegast fyrir mig,“ segir Jón. 

Jóga segir að ferlinu öllu fylgi léttir. „Það er léttir að vera búin að skila þessu út með Jóni þó ég sé ekkert mikið að pæla í því að allir séu að lesa þetta.“

Gnarr hjónin, Jóga og Jón, voru gestir í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 og ræddu um bókina, aðdragandann og ýmislegt fleira.