Sagði að Suu Kyi hefði átt að segja af sér

30.08.2018 - 10:51
epa04932847 UN High Commissioner for Human Rights Zeid Ra'ad Al Hussein of Jordan speaks on the UN Human Rights Office report on Sri Lanka during a press conference at the European headquarters of the United Nations, in Geneva, Switzerland, 16
Zeid Ra'ad Al Hussein, fráfarandi mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna. Mynd: EPA - KEYSTONE
Aung San Suuu Kyi, leiðtogi Mjanmar, hefði átt að segja af sér vegna aðgerða hersins gagnvart minnihluta Rohingja í fyrra. Þetta sagði Zeid Ra'ad al Hussein, fráfarandi mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, í viðtali við breska útvarpið BBC. 

Í vikunni birti nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna skýrslu þar sem hvatt var til að helstu yfirmenn yrðu sóttir til saka fyrir þjóðarmorð gegn Rohingjum. Þá er Suu Kyi harðlega gagnrýnd fyrir að bregðast ekki við.

Herinn hefði farið út fyrir öll mörk í aðgerðum sínum eftir meintar árásir uppreisnarmanna úr röðum Rohingja í fyrra. Skýrsluhöfundar vilja málinu vísað til Alþjóðaglæpadómstólsins í Haag.

Minnst 700.000 Rohingjar hafa flúið frá Mjanmar til Bangladess undanfarið ár og hafa þeir þeir sagt hryllingssögur af morðum, skipulögðum nauðgunum og öðrum ofbeldisverkum hermanna.

Skýrsluhöfundar segja að Suu Kyi hafi ekkert gert til að reyna að stöðva ofbeldisverk gegn Rohingjum og margir hafa hvatt hana til að fordæma ofbeldisverk hersins þótt hún hafi lítið yfir hernum að segja. 

Zeid Ra'ad al Hussein, sem lætur af embætti mannréttindastjóra um mánaðamótin, sagði í viðtali sínu við BBC að Suu Kyi hefði verið í stöðu til þess að bregðast við.

Hún hefði getað sagt af sér og getað íhugað að fara aftur í stofufangelsi í stað þess að afsaka gjörðir hersins. Hún hefði ekki þurft að vera málsvari hersins og hafnað því, eins og svo margir líti á, að vera í vitorði með hernum í aðgerðum hans gegn Rohingjum. 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi