Pétur Marteinn Urbancic mætti í Núllið og fór yfir sögu þessarar umræddu helgar og sögu þjóðhátíðarinnar sem nú er oftast kennd við Vestmannaeyjar.
Fyrsti frídagur verslunarmanna var haldinn 13. september 1894 að danskri fyrirmynd. Þetta var á þeim tíma sem fólk var almennt ekki í sumarfríi og var því kærkominn frídagur. Fyrst um sinn var þetta bókstaflega frídagur verslunarmanna, þeirra sem unnu í verslunum. Með tíð og tíma hefur dagurinn hins vegar þróast þannig að flestir eru í fríi nema þeir sem vinna í verslunum þar sem opið er þennan dag.
Dagurinn var svo á endanum færður fram í ágúst vegna þjóðhátíðar sem haldin var um allt land og var í fyrsta skipti haldin 2. ágúst 1874 til að fagna þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Þjóðhátíð átti svo seinna meir eftir að festa sig í sessi í Vestmannaeyjum þó svo að hátíðahöld séu líka víðar um landið.