Saga Verslunarmannahelgarinnar

Mynd: RÚV / RÚV

Saga Verslunarmannahelgarinnar

02.08.2018 - 11:32
Fram undan er líklegast ein uppáhalds helgi landsmanna, verslunarmannahelgin sjálf. Þá er algengt að fólk skelli sér í frí eða á einhverja af þeim ótal úti- og bæjarhátíðum sem haldnar eru. En hvert er upphaf þessarar helgar og hvernig hófst útihátíðin margrómaða, Þjóðhátíð?

Pétur Marteinn Urbancic mætti í Núllið og fór yfir sögu þessarar umræddu helgar og sögu þjóðhátíðarinnar sem nú er oftast kennd við Vestmannaeyjar.

Fyrsti frídagur verslunarmanna var haldinn 13. september 1894 að danskri fyrirmynd. Þetta var á þeim tíma sem fólk var almennt ekki í sumarfríi og var því kærkominn frídagur. Fyrst um sinn var þetta bókstaflega frídagur verslunarmanna, þeirra sem unnu í verslunum. Með tíð og tíma hefur dagurinn hins vegar þróast þannig að flestir eru í fríi nema þeir sem vinna í verslunum þar sem opið er þennan dag.

Dagurinn var svo á endanum færður fram í ágúst vegna þjóðhátíðar sem haldin var um allt land og var í fyrsta skipti haldin 2. ágúst 1874 til að fagna þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Þjóðhátíð átti svo seinna meir eftir að festa sig í sessi í Vestmannaeyjum þó svo að hátíðahöld séu líka víðar um landið.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Elstu heimildir sem Pétur Marteinn fann um vísi að þjóðhátíð eru frá árinu 1859. Það ár hóf Pétur Bryde, kaupmaður í Vestmannaeyjum að halda árlega skemmtun fyrir starfsfólk sitt í Herjólfsdal. Þar var ekkert til sparað en Pétur eyddi heilum 46 ríkisdölum í skemmtunina en til samanburðar voru heildartekjur hans úr versluninni aðeins 250 ríkisdalir á ári.

Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum hefur ekki fallið niður síðan árið 1914 og gestir hafa ekki látið veður á sig fá. Árið 1933 var fyrsta þjóðhátíðarlagið samið sem síðan þá hefur orðið hefð, hátíðin hefur svo bara farið stækkandi með árunum og er í dag ein stærsta útihátíð landsins.

Pétur Marteinn Urbancic Tómasson er gestur í Núllinu á miðvikudögum þar sem að hann fer yfir ýmis mál hverrar stundar. Hægt er að hlusta á innslagið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.