Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Saga um skáld og þolgæði kvenna andspænis valdi

Mynd: RÚV/Forlagið / RÚV/Forlagið

Saga um skáld og þolgæði kvenna andspænis valdi

12.01.2020 - 09:55

Höfundar

Gauti Kristmannsson gagnrýnandi fjallar um bók Sigríðar Kristínar Þorgrímsdóttur um móður sína, Jakobínu Sigurðardóttur rithöfund. „Þetta er saga af konu sem berst gegn öllu því sem konum var andstætt á hennar tíma, lagar sig að einhverju leyti að því, en kemst samt til frægðar og frama á endanum.“

Gauti Kristmannsson skrifar:

Á vegg í Gunnarshúsi, félagsheimili Rithöfundasambands Íslands, eru andlitsmyndir allra heiðursfélaga sambandsins frá upphafi. Þar eru vitanlega stóru nöfnin, Halldór og Gunnar, Þórbergur og Thor, en lengi framan af, engin kona. Það er ekki fyrr í þriðju eða fjórðu röð af myndunum á veggnum, ég man ekki hvort er, að fyrsta konan birtist, fyrsti kvenkyns heiðursfélaginn er útnefndur árið 1990. Konan sú er Jakobína Sigurðardóttir, viðfangsefni þessarar sögu skálds og konu eftir dóttur hennar Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur.

Þetta er hins vegar ekki saga skáldsins og konunnar einvörðungu, það er miklu meira undir þótt í einsögulegum búningi sé að einhverju leyti. Við kynnumst tíðaranda tuttugustu aldar í afskekktustu byggðum á Íslandi, stöðu kvenna í hörðum heimi sjálfsþurftarbúskapar þar sem feðraveldið er talið sjálfsagt, og finnur sér stundum farveg í því ég hef heyrt kallað ribbaldafrekju, sem er freki karlinn í öðru veldi og hagar sér nákvæmlega eins og honum sýnist í krafti valds síns sem húsbóndinn á heimilinu og allt má og getur. Tengdafaðir Jakobínu er klassískt dæmi um þetta, en við þekkjum þessar týpur allt frá Íslendinga sögum og Sjálfstæðu fólki. Við sjáum þær enn í íslensku viðskiptalífi.

Þetta er líka saga um þolgæði kvenna andspænis þessu valdi og ofurskyldum heimilishalds á tæknilausum tímum, innan húss sem utan. Bréfin milli þeirra mæðgna, Jakobínu og Stefaníu, bera þessu sterkt vitni, eða það sem til er af þeim því Jakobína vildi farga eins miklu af slíkum persónulegum gögnum og hægt var áður en hún lést og fékk meira að segja höfundinn og sagnfræðinginn til að brenna dagbækur og fleira; nokkuð sem hún átelur sig fyrir í upphafi bókarinnar, því hún verður núna að skrifa um móður sína án veigamikilla gagna sem til voru, en eru nú glötuð.

Segja má að höfundur takist á við þessar eyður af þolgæði, hugmyndaríki öllu heldur, því ramminn utan um frásögnina er skáldað samtal þeirra mæðgna, Jakobínu og Sigríðar, þar sem þær takast á um frá hverju megi segja, hvað sé einkamál og hvað megi vera opinbert. Þetta varpar líka ljósi á breyttan tíðaranda, muninn á tuttugustu öld og þeirri tuttugustu og fyrstu. Á þeirri fyrrnefndu lá margt í einkalífinu í þagnargildi, sérstaklega ef það var vont eða illt, en einnig hreinlega fjölskyldulíf almennt. Núna erum við hins vegar orðin fullkomlega gagnsæ og allir vita allt um alla á allt annan hátt en þeir gerðu í dreifbýlinu forðum daga. Bókmenntir samtímans eru þessu marki brenndar, sjálfssögur, játningar og annað í þeim dúr veitir skáldskapnum harða samkeppni, ekki aðeins á markaði, heldur einnig sem skáldskapur. Við þurfum ekki að nefna annan en Norðmanninn Knausgaard til að fá staðfestingu þess.

Sagan af Jakobínu er líka í aðra röndina saga Sigríðar Kristínar, ekki að því leyti að hún sé að rekja sinn eigin æviþráð, nema þar sem hann tengist Jakobínu beinlínis á æskuárum, heldur í sambandi þeirra mæðgna í gegnum frásögnina, samtalið við móðurina látna og undir lokin nokkurs konar uppgjör móður og dóttur sem reyndar er undir stjórn dótturinnar þar sem hún heldur á pennanum.

Þessar forsendur ævisögu, ævisögu sem er með fræðilegt apparat, mörg hundruð aftanmálsgreinar og heimildaskrá, eru þannig nokkuð sérstakar, því þótt bæði einsögur og sjálfssögur séu vel þekkt fyrirbæri innan sagnfræðinnar eru þau kannski ekki orðin hluti af meginstraumnum í slíkum skrifum. Vinnan með eyðurnar tekur að vissu leyti á sig form sagnfræðiskrifa sem iðkuð voru á átjándu öld í Evrópu og kölluð voru „conjectural history“, „tilgátusaga“ eða „rökleiðslusaga“ öllu heldur, því hún byggðist á því að nota rökhyggju til að draga ályktanir af staðreyndum til að fylla upp í eyður sögunnar þeirra á milli. Þetta var líka stundum kallað „philosophical history“ eða „heimspekileg saga“. Við þetta bætist auðvitað að höfundurinn er barn viðfangsefnisins og hefur aðgang að fjölda lifandi heimildarmanna til að spyrja og fylla upp í eyðurnar með þeim hætti.

Rökleiðslusagan birtist hins vegar í innskotum úr almennri sögu um kreppuna, stríðið, kalda stríðið og fleira í þeim dúr sem tengd eru verðandi og gjörðum persónanna sem fjallað er um hverju sinni. Mest af þeirri sagnfræði er almenn þekking, vitaskuld, en hún er nýtt til að búa til sjónarhorn á persónur og atburði. Það er einnig tiltekinn vilji til að nota þemu í bland við vissa krónólógíu sem er í sögunni; henni er skipt í tvo hluta, sá fyrri heitir „Hornstrandir, Holtin, Reykjavík 1933-1948“ og sá síðari „Garður, frá 1949“. En krónólógían er samt látin lönd og leið innan þessara hluta, það er farið jafnvel áratuga á milli í einni efnisgrein til annarrar og getur þetta virkað svolítið ruglandi á apollonískan miðaldra karl, en nær svo sínum sjarma þegar þegar á líður, þetta er einfaldlega stíll höfundar og ber vott um flögrandi hugmyndaríki, þetta heldur lesandanum vissulega á tánum innan um persónugalleríið sem höfundur er svo góður að setja upp í tvær nytsamlegar töflur, ekki síst þar sem margar persónur heita sömu nöfnum.

Ég játa að ég lét þetta tímaflakk pirra mig framan af, og einnig margendurtekin loforð um að koma að einhverju málefni síðar. Ættfræðikaflinn var síðan fróðlegur fyrir þá sem áhuga hafa á slíkum málefnum, en ég fór í gegnum hann af skyldurækni, verð ég að viðurkenna. Þó vil ég taka fram að alls ekki má vanmeta slíka kafla í frásögn sem á að hafa vægi, það nennir heldur enginn að lesa eintóma flugelda.

Lokahlutinn, þar sem skáldskapur Jakobínu og útgáfusaga leikur stærsta hlutverkið er kannski áhugaverðastur því þar fáum við að sjá hvernig miðaldra bóndakona kemur fram á bókmenntasviðið á Íslandi og nær fljótt lestri og umfjöllun. Hún var vissulega þekkt fyrir sem skáld sem birt hafði í blöðum og tímaritum, en það er ekki fyrr en um fertugt að hún fer að gefa út bækur, þegar hún er komin með sitt sérherbergi í bóndabænum, ef svo má að orði komast. Það er vitanlega skondið að sjá hversu kynjaðar viðtökurnar voru, karlarnir voru gjarnir á að flokka konur sem annars flokks, og þegar þær höfðu hæfileika eins og Jakobína, létu þeir nánast undrun í ljósi. Hún var greinilega meðvituð um að hún hefði hlutverk sem skáldkona og virðist ekki hafa verið uppnæm fyrir hrútskýringum samferðamanna sinna. Hún lét einfaldlega verkin tala.

Mér fannst síðan undir lokin að þetta sagnfræðirit væri reyndar sett undir lögmál bókmenntanna, ævintýrisins sjálfs, þetta er saga af konu sem berst gegn öllu því sem konum var andstætt á hennar tíma, lagar sig að einhverju leyti að því, en kemst samt til frægðar og frama á endanum, eins og sjá má á því að hún varð fyrsti kvenkyns heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands kjörin af öllum körlunum sem innan búðar voru og það áreiðanlega af verðleikum sínum sem skáld.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Í barndómi - Jakobína Sigurðardóttir

Klassísk tónlist

Tónlist á aldarafmæli Jakobínu Sigurðardóttur

Bókmenntir

Minnast Jakobínu Sigurðardóttur

Bókmenntir

Snaran - Jakobína Sigurðardóttir