Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Safnað fyrir sýrlenskar fjölskyldur

Mynd: Sigurður Ólafur Sigurðsson / Sigurður Ólafur Sigurðsson
Rauði Krossinn á Blönduósi undirbýr komu flóttafólks frá Sýrlandi og óskar eftir húsgögnum, húsbúnaði og heillegum fötum. Fjölskyldurnar eru væntanlegar til Blönduóss og Hvammstanga um miðjan maí.

Um þessar mundir stendur Rauði Krossinn á Blönduósi fyrir umfangsmikilli söfnun á húsgögnum, húsmunum og fatnaði til að undirbúa komu sýrlenskra fjölskyldna sem væntanlegar eru til landsins um miðjan næsta mánuð. Fjölskyldurnar setjast að á Hvammstanga og Blönduósi og er verið að standsetja íbúðir og gera klárt fyrir komu þeirra. Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Rauða Krossins á Blönduósi, segir að söfnunin hafi gengið vel og sé enn í fullum gangi. „Íbúar hafa brugðist mjög vel við og við erum komin með heilan helling af fínum húsgögnum og húsmunum. Það var áskorun fyrir bæinn að finna húsnæði fyrir fjölskyldurnar en það tókst og samstarfið gengur á allan hátt vel.“

Á feykir.is má glöggva sig á því hvað helst vantar í söfnunina. Guðrún segir að það sé tekið við öllu sem nýta má, húsgögnum, rúmfötum, handklæðum, leikföngum og heillegum fatnaði svo eitthvað sé nefnt. Vilji fólk leggja söfnuninni lið er hægt að hringja beint í Guðrúnu eða senda henni skilaboð í gegnum facebook. Farsælast sé að fólk komi mununum sjálft til Rauða krossins eða beint í íbúðirnar. Rauði krossinn sé þó boðinn og búinn að koma til móts við fólk í þeim efnum, bæði sé fjöldi sjálfboðaliða víða um land og vaskir menn sem taki að sér að bera hluti.

Fjölskyldurnar, 45 manns og þar af fjöldi barna, eru væntanlegar til Hvammstanga og Blönduóss 14. og 15. maí. 

Rætt var við Guðrúnu Margréti í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 og hlýða má á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.