Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Safna tónhlöðum fyrir fólk með heilabilun

Mynd: Yohanes Niko / Yohanes Niko

Safna tónhlöðum fyrir fólk með heilabilun

21.09.2017 - 10:15

Höfundar

Tónlist hefur gefið góða raun fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma. Hér á landi er hafin söfnun á tónhlöðum, eða Ipod Shuffle, litlum tækjum sem nutu mikilla vinsælda fyrir nokkrum árum og geyma tónlist. Hugmyndin er að fylla tækin af tónlist sem einstaklingar með heilabilun tengja við fortíð sína.

Tengdamóðir Haralds Haraldssonar er með alzheimersjúkdóminn. Þegar hann sá kvikmyndina Alive Inside kviknaði sú hugmynd að safna tónhlöðum og koma til aðstandenda fólks með heilabilun. „Ég ákvað að setja af stað söfnun og kalla eftir hjálp landans við að grafa upp Ipod Shuffle. Tækin eru einföld í notkun, aðeins þarf að ýta á spila og pásu,“ segir Haraldur. Rætt var við hann og Sirrý Sif Sigurlaugsdóttur, fræðslu- og verkefnastjóra Alzheimersamtakanna í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Kenna aðstandendum á tækin

Hugmyndin er að setja tíu til fimmtán lög í tæki hvers og eins, lög sem vekja góðar minningar. Haraldur segir að máttur tónlistarinnar sé mikill fyrir fólk með heilabilun. Fyrst óskaði hann eftir tækjum á Facebook-síðu með gefins hluti en hefur nú, ásamt eiginkonu sinni Bergdísi Eysteinsdóttur, stofnað Facebook-síðuna Tónar fyrir sálina. Þar getur fólk gefið tæki og aðstandendur, sem vilja fá tæki, geta haft samband. „Við ætlum að gera okkar besta til að þjóna sem flestum og setja lagalista, sem hver og einn þekkir, í tækin og kalla fram minningar. Þegar fólk hlustar á sömu tónlist og það gerði á yngri árum og í blóma lífsins þá kallar það fram myndir í huganum, lykt, umhverfi og fólk lifnar við,“ segir Haraldur en hann og Bergdís ætla í frítíma sínum að kenna aðstandendum á tækin.

Tónlistin veitir góða tilfinningar

Sirrý tekur í sama streng og Haraldur og segir ljóst að tónlist hafi mjög góð áhrif á fólk með heilabilun. „Í Bretlandi og Bandaríkjunum eru komin sér samtök um svona verkefni. Playlist for Live er í Bretlandi og var stofnað af  dóttur Magnúsar Magnússonar, Sally Magnusson, höfund bókarinnar Handan minninga. Hún sá hvað tónlist hafði góð áhrif á mömmu hennar.“ Sirrý bendir á að tilfinningaminnið og heyrnin séu eitt það síðasta sem fer þegar fólk fær heilabilunarsjúkdóm. „Þetta er enn í heilanum og virkar stöðvar sem eru enn til staðar og virka og veita vellíðan. Þessi hughrif geta annars vegar vakið upp góðar minningar og veitt þessa ofsalega góðu tilfinningu sem fólk með heilabilunarsjúkdóma getur enn þá fundið.“

Enn eru töluverðir fordómar og vanþekking varðandi heilabilunarsjúkdóma, að sögn Sirrýjar. „Svona sjálfsprottin verkefni eru því algjörlega frábær, að verið sé að opna umræðuna og benda á þetta jákvæða og hvað er hægt að gera. Af því að heilinn fer á flug við tónlist. Tónlistin er í raun bara þjálfun fyrir heilann.“

Alþjóðlegi Alzheimerdagurinn er í dag.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.