Safna í brennuna allan ársins hring

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson

Safna í brennuna allan ársins hring

29.12.2016 - 19:22

Höfundar

Kapalkefli, vörubretti og annað eldfimt timbur hleðst nú upp í vígalega bálkesti víða um land. En það er ekki einfalt að undirbúa áramótabrennuna. Fara þarf eftir fjölmörgum reglugerðum og brennan má ekki loga of lengi.

Við Réttarhvamm á Akureyri gengur mikið á, en þar hefur áramótabrenna Akureyringa verið í mörg ár. Bálkösturinn stækkar óðum og það stefnir í myndarlega brennu.

Brennuleyfi fylgja fjölmörg skilyrði

En það er ekki sama hvaða efni fer í bálköstinn, því það má ekki brenna hverju sem er. Svo skiptir líka máli hvernig bálkösturinn er hlaðinn. „Þessu er stillt þannig upp að það fer loft undir þetta, keflin eru sett neðst og svo ruslið ofan á, eða það smærra. Þetta á að brenna hratt og ég held að það gangi,“ segir Gunnþór Hákonarson, yfirverkstjóri hjá umhverfismiðstöð Akureyrabæjar. Og brennuleyfi fylgja mörg skilyrði. Það þarf meðal annars leyfi landeigenda, heilbrigðiseftilits, lögreglu og slökkviliðs, það þarf að tryggja brennuna og svo má ekki loga of lengi.

Fyrirtækin safna timbri allt árið

Starfsmenn Akureyrbæjar hafa umsjón með brennunni og þar er eiginlega ekki safnað í brennu, heldur er samið við nokkur fyrirtæki um eldiviðinn. Og þar má ekki hrófla við brennuefninu allt árið. „Nei, nei, við söfnum yfir allt árið, enda eigum við orðið vel góðan haug,“ segir Gunnar St. Gíslason, lagerstjóri hjá Norðurorku. „Þetta fer náttúrulega eftir því hvað eru miklar framkvæmdir yfir árið.“

„Olíugengið“ klárt í slaginn

Og „olíugengið“ er byrjað að undirbúa áramótin, en það er engin brenna án þess að skvett sé rækilega á eldinn. „Við mætum og klæðum okkur upp í þessa skemmtilegu galla,“ segir Kristjana Árný Árnadóttir, sem ætlar að skvetta á áramótabrennuna á Akureyri fjórða árið í röð. „Við semsagt kveikjum í brennunni og skvettum olíu á hana þangað til hún er bara búin!“