Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sæstrengur aðeins með samþykki ríkisins

20.08.2019 - 17:31
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Sérfræðingur í hafréttarmálum segir málflutning andstæðinga þriðja orkupakkans óskiljanlegan. Fullyrðingar um að með samþykkt hans skuldbindi íslenska ríkið sig til að standa ekki í vegi fyrir lagningu sæstrengs standist ekki. Í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sé skýrt kveðið á um að enginn geti lagt sæstreng inni í landhelgina nema með samþykki viðkomandi ríkis. Í þessu tilfelli íslenska ríkisins.

Það er stefnt að því að atkvæðagreiðsla fari fram á Alþingi um 3. orkupakkann, mánudaginn 2. september. Andstæðingar innleiðingar vilja að pakkanum verði hafnað og þeim tilmælum komið til sameiginlegu EES nefndarinnar að Ísland verði undanþegið innleiðingu hans í ljósi þess að Ísland er ekki tengt raforkumarkaði ESB. Rök þeirra eru meðal annars að Ísland geti ekki staðið í vegi fyrir því að hér verði lagður sæstrengur. Með tengingu hækki raforkuverð og orkuöryggi landsins ógnað. Frosti Sigurjónsson einn talsmaður Orkunnar okkar sagði á fundi utanríkismálanefndar í gær að já við orkupakkanum væri já við sæstreng.

 Bent er á texta í aðfararorðum að reglugerðinni um orkupakkann en þar segir:

Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku.

Andstæðingar pakkans segja að Ísland geti ekki synjað lagningu sæstrengs. Það myndi enda með skaðabótum sem gætu numið mörgum milljörðum.

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur verið í broddi fylkingar þeirra sem telja að það sé ekki hægt að synja fyrirtækjum um að leggja sæstreng. Sérfræðingar sem komið hafa fyrir utanríkismálanefnd eru sammála um að í reglugerð um orkupakkann sé ekkert sem skyldi Ísland að tengjast raforkuneti ESB. Arnar Þór er sammála þessu. Hann segir að lagning sæstrengs felist hins vegar í innleiðingu pakkans.

 „Vegna þess að það er verið að undirgangast þarna ákveðnar skuldbindingar til þess að þvælast ekki fyrir þeim sem vilja leggja sæstreng til Íslands, fjárfestum og fyrirtækjum sem segja að við erum með fjármagn og við erum tilbúin að leggja þennan streng.“

Enginn leggur sæstreng nema með samþykki íslenskra ríkisins

En hvernig svarar Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík þessum fullyrðingum. Sérsvið hans er hafsbotninn og doktorsritgerð hans fjallar um deilur um landgrunnið. Hann segir að þetta standist engin rök. Hann bendir á að hið eiginlega alþjóðlega regluverk um sæstrengi sé að finna í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

 „ Samkvæmt hafréttarsáttmálanum í samræmi við fullveldi ríkja þá ráða ríki hvort að lagður er sæstrengur á þeirra yfirráðasvæði. Í þjóðarrétti er yfirráðasvæði skilgreint þannig að það sé landsvæðið, innsævi og landhelgin. Þannig að það fer engin þarna inn nema með samþykki íslenska ríkisins," segir Bjarni Már.

Fabúleringar

Hann segir líka að fullyrðingar um skaðabótaskyldu íslenska ríkisins standist ekki. Þeir sem haldi því fram geti ekki bent á neina stoð fyrir sæstrengjaskyldu. Aðeins sé vitnað í inngangsorðin.

„Það segir ekkert um sæstreng og það er ekki hægt að líta þannig á að einhver markmið trompi þá þetta að ríki ráði því hver kemur með sæstreng  til þeirra því það er hluti af fullveldisréttinum. Ríki geta auðvitað veitt samþykki sitt fyrir að hleypa sæstreng inn en þetta samþykki birtist ekki í einhverjum almennum inngangsorðum um að stefna skuli að nánari samvinnu í orkumálum. Þannig að vegna þess að þessi grunnur er ekki til staðar þá er engin réttur til að leggja þennan sæstreng nema með samþykki Íslands. Þar af leiðandi er ekkert hægt að fara fram á  bætur fyrir eitthvað sem þú hefur ekki rétt á. Það er algjört lykilatriði,. Þannig að þessar fabúleringar eru algjörlega reistar á sandi. Grunnstoðin er ekki til staðar" segir Bjarni Már.

Hann segir að fullyrðingar um að rétturinn til að leggja sæstreng grundvallist á fjórfrelsinu svokallaða í EES samningum um frjálsa för vöru standist ekki.

„Nei, nei, fiskur er vara. Það þýðir ekki að allir geti veitt í íslenskri lögsögu. Þetta virkar ekki svona að það séu bara einhver prinsipp sem sé stefnt að og þau trompi allt annað," segir Bjarni Már.

Óskiljanlegur málflutningur

Rök þeirra sem segja að lagning sæstrengs tengist orkupakkanum lúta að því að íslenska ríkið skuldbindi sig til að þvælast ekki fyrir þeim sem vilja leggja hingað sæstreng. Bjarni Már fellst ekki á þessi rök.

„ Það er engan veginn hægt að komast að þeirri niðurstöðu. Þetta er bara, eins og ég hef sagt áður, einhver töfrabrögð. Þetta er í raun óskiljanlegur málflutningur," segir Bjarni Már.